Vefþjóðviljinn 68. tbl. 18. árg.
Nokkuð hefur verið rætt um hlutdrægni í fréttaflutningi og þjóðmálaumræðu undanfarið. Ríkisútvarpið ákvað að nota tækifærið til að sýna almennan skilning sinn á málinu með því að borga fyrirtæki fyrir að telja „jákvæðar“, „neikvæðar“ og „hvorki jákvæðar né neikvæðar“ fréttir Ríkisútvarpsins á einhverjum tíma. Flestir ættu þó að sjá að niðurstaða slíkrar talningar, eftir mat einhvers starfsmanns þessa fyrirtækis á því hvort hver og ein frétt sé „neikvæð“ eða „jákvæð“, segir mjög lítið um hlutleysi eða hlutdrægni.
Eitt af því sem segir hins vegar mikið um hlutleysi fjölmiðils í fréttum er hvort hann tekur sambærileg málefni sambærilegum tökum, óháð því hvaða einstaklingar, flokkar, fyrirtæki og svo framvegis eiga í hlut.
Menn geta sem dæmi tekið frásagnir sumra fjölmiðla af málefnum núverandi seðlabankastjóra. Ekki verður nú alltaf sagt að áhuginn hafi verið mjög mikill, miðað við um hvað málið snýst.
Til að velta fyrir sér hlutdrægni eða hlutleysi miðilsins þá geta menn í huganum lagt óvísindalegt próf fyrir fjölmiðilinn. Til þess þarf einfaldlega að breyta um nöfn í fréttinni. Ímynda sér að einhver annar seðlabankastjóri hefði farið í mál við bankann til að krefjast launahækkunar fyrir sjálfan sig, en verið á sama tíma mikill baráttumaður gegn launahækkunum í landinu. Seðlabankastjórinn hefði tapað málinu en þá hefði formaður bankaráðs, flokksbróðir hans, ákveðið án þess að segja neinum frá því, að bankinn myndi borga kostnað bankastjórans af málinu. Þetta hefði komist upp löngu síðar en þá verið svarað með einhverju tali um sjálfstæði bankans.
Hvernig halda menn að ljósvakamiðlarnir hefðu látið? Hvar í röðinni hefði fréttin verið? Hefði hún snúist að mestu um varnir bankastjórans? Eða ætli það gæti verið að þeir hefðu algerlega gengið af göflunum? Ætli handhafar réttlætisins væru búnir að boða útifund og mótmæli? Og ætli þau fyrirhuguðu mótmæli yrðu vandlega kynnt í öllum fréttatímum til að auka aðsóknina? Ætli álitsgjafarnir yrðu stóryrtir?
Eða ætli allt yrði eins og það er þegar Már og Lára eiga í hlut?
Menn geta gert svona próf í huganum í svo ótal mörgum málum.
Ætli það sé alltaf samræmi í því hvenær ljósvakamiðlar auglýsa mótmælafundi vandlega og hvenær þeir fjalla eingöngu um þá í því skyni að gera fundarboðendur tortryggilega?
Ætli það sé alltaf samræmi í því ávirðingar hvaða stjórnmálamanna eru nefndar einu sinni eða tvisvar ef þær eru þá nokkuð nefndar, og svo hvaða stjórnmálamenn fá sín mál rifjuð upp aftur og aftur, oft rangtúlkuð og ýkt?
Það mætti telja næstum endalaust upp dæmi um það hvernig fréttastofurnar og þáttastjórnendurnir taka menn ólíkum tökum. Það er í slíkum hlutum sem hlutleysi eða hlutdrægni birtist. En ekki í því hvort Ríkisútvarpið hefur sagt fleiri eða færri fréttir af einhverjum krísufundum ráðherra evruríkjanna