Vefþjóðviljinn 67. tbl. 18. árg.
Menn þykjast hissa á fréttum um að seðlabankinn hafi greitt málskostnað bankastjórans sem stefndi bankanum vegna launamála en hafði ekki erindi.
Þá er eins og menn hafi gleymt því að þetta er seðlabanki ríkisins, ríkisstofnun með yfir hundrað starfsmenn sem ætlað er að skaffa mönnum nothæfan gjaldmiðil og ákveða verð á fjármagni fyrir fólk og fyrirtæki með sérstakri verðlagsnefnd fjármagns sem kölluð er því fína nafni „vaxtastefnunefnd“.
Hvað getur komið nema undarlegheit út úr því?
Eftir alla þá kennslu í miðstýrðum verðákvörðunum sem 20. öldin bauð upp á til samanburðar við lönd og álfur þar sem verðlag var almennt ákveðið í samningum milli kaupanda og seljanda er það jafnvel furðulegra en launamál Más að enn skuli haldið úti verðlagsnefndum fyrir fjármagn. Eftir alla reynsluna af ríkisverksmiðjum er það meira að segja furðulegra en greiðsla málskostnaðar Más að enn sé það talið heppilegt að ríkið framleiði gjaldmiðil.