Föstudagur 7. mars 2014

Vefþjóðviljinn 66. tbl. 18. árg.

Ríkisútvarpið leitar nú leiða til að réttlæta hlutdrægni sína í fréttaflutningi af Evrópusambandsmálum.
Ríkisútvarpið leitar nú leiða til að réttlæta hlutdrægni sína í fréttaflutningi af Evrópusambandsmálum.

Ætli þeir hjá Ríkisútvarpinu trúi þessu sjálfir, eða setji þetta bara fram handa öðrum til að trúa?

Ríkisútvarpið borgaði fyrirtækinu Creditinfo til að flokka fréttir fjölmiðla um Evrópusambandið í „jákvæðar“, „neikvæðar“ og „hvorki jákvæðar né neikvæðar“, svona eins og slík samantekt segi eitthvað um það hvort Ríkisútvarpið sé hlutdrægt í Evrópusambandsmálum.

RTalning á fréttum og mat einhvers hjá Creditinfo á því hvort hver og ein frétt sé jákvæð eða neikvæð, segir almennt lítið um hlutdrægni eða hlutleysi. Slagsíða felst í allt öðrum hlutum.

Slagsíða getur komið fram í því að fjölmiðill þegir um nýgerðar skoðanakannanir sem ekki falla í kramið á fréttastofunni, en hampar svo öðrum sem betur hentar í herferðinni.

Slagsíða getur komið fram í því að lítið sé gert með það þegar vinstrigrænir lofa Samfylkingunni að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hálfum mánuði eftir að Steingrímur J. Sigfússon lofar kjósendum því að það verði ekki gert.

Slagsíða getur komið fram í því að sömu fréttamenn og hafa næstum engan áhuga á ólgunni innan Vinstrigrænna þegar flokkurinn fer gegn yfirlýstri stefnu sinni, birta samfelld viðtöl við þá Sjálfstæðismenn sem eru að springa úr reiði yfir því að forysta flokksins ætlarað fylgja eigin landsfundarsamþykktum.

Slagsíða getur komið fram í því að varla sé minnst á að ákvörðun stjórnarflokkanna um að draga til baka inngöngubeiðnina í Evrópusambandið sé algerlega í samræmi við ákvörðun landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málinu.

Slagsíða getur komið fram í því, að mikil vinna og fyrirhöfn sé lögð í að reyna að láta líta svo út að einstök ummæli ráðherra og stjórnarþingmanna séu ónákvæm, en sömu fréttamenn hafi í fjögur ár haft lítinn áhuga á alvarlegum rangfærslum vinstriráðherranna.

Talning einhvers starfsmanns hjá Creditinfo á „neikvæðum“ og „jákvæðum“ fréttum af Evrópusambandinu segir ekkert um hlutdrægni Ríkisútvarpsins. Starfsmaðurinn hjá Creditinfo veltir því ekki fyrir sér að Ríkisútvarpið geri nær ekkert með opið bréf forystumanna Vinstrigrænna sem kalla Steingrím J. Sigfússon „ómerking“, en sama Ríkisútvarp sé með langar beinar útsendingar frá enn einu viðtalinu við Benedikt Jóhannesson um þá óhæfu að hann fái ekki að stjórna forystu Sjálfstæðisflokksins.

Maðurinn hjá Creditinfo veltir þessu ekki fyrir sér. Hann sér hins vegar frétt um að haldinn hafi verið fundur um skuldavanda evruríkjanna og merkir samviskusamlega hjá sér: Neikvæð frétt um Evrópusambandið.
Maðurinn hjá Creditinfo veltir ekki fyrir sér hvaða fréttaefni er sleppt. Hann sér hins vegar frétt um aukið atvinnuleysi á Spáni og merkir við hjá sér: Enn ein neikvæð frétt um Evrópusambandið.

Undanfarin ár hefur Evrópusambandið gengið í gegnum ástand sem flestir munu sammála um að sé mesta kreppa í sögu þess. Í nokkur ár hefur myntsamstarfið hangið á heljarþröm og aðeins fyrir ótrúlegan fjáraustur frá almennum borgurum til banka og fjármálafyrirtækja sem hefur tekist að halda því gangandi. Óánægja með Evrópusambandið hefur mælst í methæðum í flestum aðildarríkjum og þannig má áfram telja. Undanfarin ár hefur verið næstum útilokað að halda úti fjölmiðli án þess að fréttir af Evrópusambandinu séu ekki fremur neikvæðar en jákvæðar, þótt Fréttablaðinu hafi að sjálfsögðu tekist það auðveldlega.
Þá má velta fyrir sér hvort raunverulega óhlutdrægur fjölmiðill birti álíka margar „neikvæðar“ fréttir og „jákvæðar“ af Evrópusambandinu á meðan svo er.

Það má taka dæmi til skýringar, án þess að gefið sé í skyn að þessi tvö fréttaefni séu sambærileg. Ef einhver myndi kanna hvort fréttir af stöðu samkynhneigðra í Úganda væru almennt „jákvæðar“, „neikvæðar“ eða „hvorki jákvæðar né neikvæðar“, hvað myndi þá koma út?

Væntanlega sú niðurstaða að allir óhlutdrægir fjölmiðlar birtu miklu fleiri neikvæðar fréttir en jákvæðar. Ef einhver fjölmiðill birti jafn margar jákvæðar fréttir og neikvæðar af stöðu samkynhneigðra í Úganda, þá dytti engum í hug að halda að hann væri óhlutdrægur í fréttaflutningi sínum af málefninu.

Það er ekki verið að líkja Evrópusambandinu við Úganda. En á þeim tíma sem Evrópusambandið gengur í gegnum mestu kreppu í sögu sinni, þá má búast við því af óhlutdrægum fjölmiðlum að fréttir þeirra af stöðu mála í sambandinu séu mun frekar neikvæðar en jákvæðar.