Fimmtudagur 6. mars 2014

Vefþjóðviljinn 65. tbl. 18. árg.

Til að hafa hemil á fjölda ferðamanna inn á viðkvæm svæði þarf gjaldtaka að vera sýnileg.
Til að hafa hemil á fjölda ferðamanna inn á viðkvæm svæði þarf gjaldtaka að vera sýnileg.

Erlendum ferðamönnum fjölgar ört. Þeir þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af gistingu og bílaleigubílarnir sem þeir aka á eru sömuleiðis með lægri sköttum en aðrir fólksbílar. Þetta er ekki jafnræði.

Fram að þessu hafa ferðamenn einnig að mestu farið um náttúruperlur landsins án þess að leggja nokkuð af mörkum til reksturs þeirra, verndunar eða viðhalds.

Með aðgangseyri að náttúruperlum má ekki aðeins afla fjár til að vernda þær og bæta aðstöðu ferðamanna heldur er einnig mögulegt að stýra aðsókninni. Til dæmis með mismunandi gjaldi eftir tíma dags og árs. Það hafa fáir áhuga á að fljóta í mannhafi niður Almannagjá eða þurfa að olnboga í sig gegnum þvögu til að sjá glitta í Dettifoss. 

Það er því einn af mikilvægustu þáttum gjaldtöku að hún sé sýnileg.

Miðstýringarhugmyndir eins og náttúrupassi og komugjöld ná ekki þessu marki. Þar er reynt að leyna gjaldtöku fyrir ferðamanninum og gjaldið rennur í ríkissjóð með veikri von um „endurúthlutun“ til reksturs ferðamannastaðanna.