Vefþjóðviljinn 64.tbl. 18.tbl.
Það er að mörgu leyti skiljanlegt að utanríkisráðherra vilji hafa allan vara á sér þegar kemur að samskiptum við svonefnda fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Fréttastofu Ríkisútvarpsins er nefnilega miskunnarlaust beitt í innanlandspólitík, þegar starfsmönnum hennar sýnist svo. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi í nýlegri umfjöllun starfsmanna hennar um Evrópusambandsmál. Þar leynir sér ekki hvar samúð starfsmannanna liggur. Stórt og smátt er notað til að byggja upp myndina sem þjóðinni skal gefin, og væri mjög fróðlegt að bera það saman við vinnubrögð sömu fréttastofu fyrir fjórum árum þegar vinstrigrænir samþykktu hálfum mánuði eftir kosningar að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og hafði Steingrímur J. Sigfússon síðast lofað hinu gagnstæða í sjónvarpsþætti kvöldið fyrir kosningar.
En Evrópusambandssinnarnir mega auðvitað ekki missa dampinn. Ef þeim á að takast að hræða þingmenn stjórnarflokkanna frá því fylgja stefnu sinni eftir, þá verða að vera samfelldar fréttir í sömu átt, og svo reglulegar skoðanakannanir í framhaldi af fréttaflutningnum. Það verður að tryggja að þingmennirnir nái ekki að anda og sjá í gegnum rykið. Enginn dagur má líða svo ekki sé talað við einhvern sem segir það sama og handvaldi viðmælandinn gerði í gær. Kannski gefast þingmennirnir upp.
Lítið dæmi um ofsann í Efstaleiti 1 er frétt sem látin var dynja á fólki fyrir fáum dögum. Þar var því slegið upp að „skrifstofa Framsóknarflokksins“ hefði nú bara „lofað því á kjördag“ að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið yrði ekki afturkölluð án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefði hún Kolbrún á skrifstofunni gert í tölvupóstsamskiptum við einn ónafngreindan kjósanda, og til að leggja áherslu á hversu mikilvægar upplýsingar þetta væru var sagt að fréttastofan hefði tölvupóstinn „undir höndum“.
Menn þurfa að vera ótrúlega æstir í daglegri stjórnmálabaráttu og hafa mjög mikinn vilja til að hafa áhrif á framvindu hennar, til að búa til stórfrétt um þetta.
Hvað mun fréttastofan segja, ef einhver bendir á dæmi þess að einhver starfsmaður á kosningaskrifstofu hefði svarað með þveröfugum hætti fyrirspurn einhvers kjósanda um málið? Er þá líka komið „loforð“ í hina áttina, sem ekki má svíkja?
Allir vita að í kosningum dynja spurningar kjósenda á starfsmönnum á kosningaskrifstofum. Þeir svara einhvern veginn. Sumir þekkja stefnuna vel, aðrir minna. Sumir svara eins og þeir halda að stefnan sé og örugglega svara einhverjir því sem þeir halda að kjósandinn vilji heyra. Það hefur aldrei nokkrum manni dottið í hug að stjórnmálaflokkur sé bundinn af öllum þeim túlkunum sem einstakir starfsmenn eða sjálfboðaliðar á skrifstofum hafa á stefnumálum.
Fyrr en núna, þegar tilvist Samfylkingarinnar veltur á því að það takist með áhlaupi að hræða einhverja þingmenn stjórnarliðsins frá sannfæringu sinni.
Hversu miklum tíma hefur „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ varið í að sanna fyrir landsmönnum að stjórnarflokkanir hafi lofað því sem fréttamennirnir vilja? Og hversu miklum tíma hefur fréttastofan varið til að benda á það sem bendir í hina áttina?
Hversu miklum tíma hafa fréttamenn varið til að útskýra fyrir fólki, til dæmis, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi lýst því opinberlega yfir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki gera hlé á aðildarviðræðum heldur slíta þeim? Og að Bjarni Benediktsson hafi lýst því yfir að flokkurinn myndi ekki standa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu? Og að Bjarni Benediktsson hafi einnig lýst því yfir, sérstaklega spurður um þjóðaratkvæðagreiðslur, að skilyrði þess að farið yrði út í hana, væri það að flokkar sem styddu inngöngu í Evrópusambandið fengju meirihluta atkvæða í þingkosningunum? Og að Evrópusambandsflokkarnir hafi svo fengið rúmlega 20% atkvæða í kosningunum.
Það hefur verið eytt fremur litlum tíma í það, í samanburði við það hversu mikil áhersla hefur verið lögð á aðra hluti.
En auðvitað er þetta ekki jafn fréttnæmt og það hvað kolla@framsokn kann að hafa sagt við ónafngreindan kjósanda, í tölvupósti sem fréttastofan hefur undir höndum.
Það er í raun merkilegt, miðað við hversu fréttastofan telur orð Kollu vera mikilvæg, að fréttastofan hafi ekki kannað hvað annað Kolla kann að hafa sagt í kosningabaráttunni. Það eru nefnilega stórfelld svik ef þingmenn framsóknarflokksins fara ekki eftir tölvupóstum Kollu.
Fréttastofan sem hafði fremur litlar áhyggjur af því að Steingrímur J. Sigfússon sagði kjósendum, í umræðum kvöldið fyrir kjördag, að vinstrigrænir myndu ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að þeir hefðu ekkert umboð til þess, telur núna stórmál hvað Kolla á skrifstofu framsóknar sagði við einn kjósanda í tölvupósti. Fréttastofan má ekki til þess hugsa að umsóknin, sem vinstrigrænir sögðust ekkert umboð hafa til að samþykkja, verði afturkölluð. Og nú er allt gert til að reyna að hræða þingmenn stjórnarmeirihlutans frá því að afturkalla umsóknina.