Vefþjóðviljinn 26. tbl. 18. árg.
Á síðustu árum hafa vinstrisinnaðir stjórnmálamenn mætt ótrúlega lítilli andspyrnu meðal annarra kjörinna fulltrúa. Þetta sést á ótal sviðum og virðist fátt breytast þar, þrátt fyrir nýja ríkisstjórn.
Eitt dæmi af ótal mörgum er að ofstækismenn náðu að koma sérstöku ákvæði inn í lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þess efnis að á veitingastöðum væri „hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. “
Þarna ákveða einhverjir þingmenn, af því að þeim sjálfum finnst nektardans slæmur, að banna hann einfaldlega. Það fólk sem áður vann sér inn peninga með nektardansi, má ekki gera það lengur.
Eins og venjulega talar enginn á þingi fyrir einstaklingsfrelsinu þegar að því er sótt. Þegar kemur að nektardansi heyrast ekki hástemmdu ræðurnar sem fluttar eru af öðru tilefni um umburðarlyndi og nauðsyn þess að viðurkenna ólíkt gildismat. Nektardansarinn á ekki sinn lit í regnbogafána umburðarlyndisins. Í huga þingmanna er nektardans svo niðurlægjandi fyrir dansarann að það getur bara ekki verið að nokkur vilji stunda þetta starf ótilneyddur. Það séu bara einhverjir vondir kallar að græða á eymd annarra sem reki slíka staði og sjálfsagt að banna þetta.
Nú er kominn ný ríkisstjórn og nýr þingmeirihluti. Það er samt útilokað að núverandi þingmenn hrófli við þessu banni. Núverandi þingmenn hafa fæstir nokkurn raunverulegan áhuga á frelsi einstaklingsins. Hjá flestum þingmönnum, og ekki síst núverandi forystusveit Sjálfstæðisflokksins, snúast stjórnmál um tæknileg úrlausnarefni, ekki framgang stjórnmálahugsjóna. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins munu ekki hafa frumkvæði að því að afnema gælumál vinstriflokkanna. Þeir munu í allra mesta lagi halda fund með útvöldum tæknikrötum og spyrja þá hvort þeir vilji breyta einhverju. Á þeim fundi ræðst svo stefna ráðherrans.
Í síðustu viku sagði Ríkissjónvarpið langa frétt um að listamaðurinn Curver Thoroddsen væri nú að hefja mánaðarlangan gjörning á listasafni. Gjörningurinn fer þannig fram að listamaðurinn eyðir mánuði á listasafninu og er þar á daginn að flokka persónulegt dót sitt. Pappíra og gamlar kassettur og slíkt. Og þetta ætlar hann að gera allsnakinn.
Í einn mánuð mun þessi listamaður vera til sýnis þar sem hann skríður um í dóti sínu og flokkar pappíra. Allsnakinn. Ríkissjónvarpið sýndi langt myndskeið þar sem listamaðurinn gekk og skreið um, allsnakinn. Sjálfur sagði listamaðurinn að sýningin fjallaði ekki síst um mörk einkarýmis og almannarýmis.
Þeir sem fara á þessa sýningu, sem verða væntanlega fjölmargir, eru auðvitað engir dónakallar. Þeir eru að fara á fína listsýningu þar sem fjallað er um mörk einkarýmis og almannarýmis. Ef sýningin hefði hins vegar farið fram á skemmtistað þá hefði hún auðvitað verið ólögleg. Því enginn maður kemur fram allsnakinn nema hann hafi verið seldur mansali. Dansarar, sem koma fram naktir á skemmtistöðum og þiggja há laun fyrir, eru allir þrælar. Kapparnir í Chippendales, sem komu stundum til Íslands og dönsuðu fyrir fullu húsi íslenskra kvenna, voru vafalaust allir þrælar. Ekki dettur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í hug að leyfa megi slíka starfsemi á Íslandi. Sá sem skríður í mánuð allsnakinn á listasafni og flokkar pappíra, hann er listamaður sem fær kynningu í fréttum Ríkissjónvarpsins.