Vefþjóðviljinn 25. tbl. 18. árg.
Hallbjörn Karlsson sem situr í stjórnum VÍS og Haga í krafti hlutafjáreignar Hagamels ehf. ritaði grein í Fréttablaðið 14. janúar þar sem hann lýsir yfir stuðningi við lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.
Fullyrða má að allt of margir óhæfir karlar sitji í stjórnum fyrirtækja í dag. Þetta er vegna þess að á Íslandi búa jafnmargar konur og karlar. Og íslenskar konur eru jafnklárar íslenskum körlum. Væri valið úr slíkum hópi eingöngu á forsendum hæfis væru jafnmargar konur og karlar við stjórnarborðið.
Eins og Hallbjörn ætti að þekkja ágætlega eru stjórnarmenn í hlutafélögum ekki eingöngu valdir á „forsendum hæfis“ heldur á forsendum eigenda hlutafjár. Þess vegna situr Hallbjörn sjálfur í stjórnum bæði VÍS og Haga fyrir Hagamel ehf. en ekki einhver annar hæfur einstaklingur af handahófi, kona eða karl.
Og þess vegna sitja Hallbjörn og tveir aðrir karlar í þriggja manna stjórn Hagamels ehf.
Það er eiginlega lágmark að þegar menn vilja skikka annað fólk með lagaboði til að haga sér með ákveðnum hætti að þeir hagi sér þá þannig sjálfir.