Vefþjóðviljinn 6. tbl. 18. árg.
Í síðustu viku fjallaði Vefþjóðviljinn um útsvar sveitarfélaga og gat þess að einungis þrjú sveitarfélög í landinu lækka útsvarið milli ári, auk þess eina sem innheimti lágmarksútsvar. En sveitarfélög geta gert fleira en lækka útsvar, til að bæta hag íbúanna.
Í dag skrifar Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar og oddviti Sjálfstæðisflokksins þar, grein í Morgunblaðið þar sem hann rekur þróun fasteignaskatts í sveitarfélaginu undanfarin ár. Þegar sjálfstæðismenn komust í meirihluta í bænum voru fasteignagjöld þar hæst á landinu. Þrátt fyrir þessi háu gjöld hafi mikið tap verið á rekstri bæjarins og skuldir aukist. Á síðstu árum hafi hins vegar tekist að skila afgangi, lækka skuldir og lækka fasteignaskatta. Gerð hafi verið þriggja ára áætlun, fyrir árin 2012-2014, þar sem fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hafi verið lækkaður úr 0,35% í 0,275% og sé það fimmtungslækkun.
En hvers vegna voru fasteignagjöldin lækkuð, spyr Eyþór og svarar því í greininni. Í fyrsta lagi sé mikilvægt fyrir sveitarfélagið að vera samkeppnisfært og lægra húsnæðisverð sé aðdráttarafl fyrir þá sem vilja stærra húsnæði en í boði sé fyrir sama verð á höfuðborgarsvæðinu. Í öðru lagi hafi íslensk heimili verið of skuldsett og lægri fasteignagjöld hafi létt þær byrðar. Í þriðja lagi búi ört stækkandi hópur eldri borgara í eigin húsnæði og æskilegt að létta þessum gjöldum af þeirra herðum, en jafnan sé æskilegast að slíkar aðgerðir séu almennar og því betra að gangast fyrir almennri lækkun en sérstökum afslætti fyrir einstaka hópa.
Ástæða er til að hvetja sveitarstjórnarmenn annars staðar á landinu til að kynna sér þessi viðhorf ráðamanna á Selfossi, um leið og Eyþóri og félögum hans er hrósað fyrir þessa skattalækkun. Mikilvægt er að halda áfram á þessari farsælu braut.