Helgarsprokið 5. janúar 2014

Vefþjóðviljinn 5. tbl. 18. árg.

Al Gore hefur nú viðurkennt að hafa stutt lög um endurnýjanlegt eldsneyti vegna kjördæmapots í Tennessee. Þurfa fleiri að gera slíkar játningar?
Al Gore hefur nú viðurkennt að hafa stutt lög um endurnýjanlegt eldsneyti vegna kjördæmapots í Tennessee. Þurfa fleiri að gera slíkar játningar?

Hinn 16. desember síðastlistinn ritaði danski tölfræðingurinn Björn Lomborg grein í The Daily Telegraph undir yfirskriftinni: „The great biofuels scandal – Biofuels are inefficient, cause hunger and air pollution, and cost taxpayers billions.“

Í upphafi greinarinnar segir Lomborg frá því að innan Evrópusambandsins hafi að undanförnu verið uppi tillögur um að lækka markmið tilskipunar sambandsins um að 10% eldsneytis í samgöngum verði af svonefndum endurnýjanlegum uppruna árið 2020. Þær tillögur hafi ekki náð fram að ganga að þessu sinni en gera megi ráð fyrir að þær verði áfram til umræðu.

Sem kunnugt er samþykkti Alþingi síðasta vor frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, skrifað af Benedikt Stefánssyni starfsmanni Carbon Recycling International, um að leiða þessa tilskipun með hraði í lög hér á landi. Lögin hafa þær afleiðingar að þegar er hafinn innflutningur á dýrri jurtaolíu sem blanda á í Dieselolíu. Í framhaldinu má jafnvel búast við því að korn-etanól til íblöndunar í bensín verði flutt inn. Innkaupskostnaður Íslendinga á eldsneyti mun hækka um mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri á ári vegna þessarar löggjafar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir fer nú með málaflokkinn sem iðnaðarráðherra og hafði tækifæri til að vinda ofan af þessu og koma í veg fyrir tjónið nú á haustþingi en gerði ekki. Metanólverksmiðja Carbon Recycling International er í kjördæmi Ragnheiðar Elínar en vonast var til að lögin, sem fyrirtækið kokkaði ofan í grunlausa þingmenn, myndu færa fyrirtækinu mörg hundruð milljóna króna viðskipti á ári.

Nú er ráðuneyti sem lætur hagsmunaaðila skrifa fyrir sig lagafrumvarp auðvitað ekki við bjargandi. En hver er sjálfsvirðing löggjafarsamkomu sem lætur það viðgangast að fyrir hana sé lagt til samþykktar frumvarp, skrifað af hagsmunaaðila úti í bæ, og aðhefst svo ekkert þegar upp kemst hvernig í pottinn er búið?

En svo áfram sé haldið að leggja út af grein Björns Lomborgs þá segir hann að löggjöf um lífeldsneyti í Evrópu og Bandaríkjunum sé dæmi um það hvernig góður ásetningur geti leitt til hörmulegrar niðurstöðu. Í byrjun hafi umhverfissinnar lofað lífeldsneytið sem lið í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifunum. Nú hafi þeir hins vegar snúið baki við þessari lausn og jafnvel Al Gore segi að notkun lífeldsneytis séu „mistök“.

Lomborg bendir á að framleiðsla lífeldsneytis útheimti ekki aðeins land sem ella gæti nýst til annarrar ræktunar heldur þurfi hún mikinn áburð og orku úr jarðefnaeldsneyti. Þegar allt sé talið dragi notkun lífeldsneytis ekki úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda svo nokkru nemi. Að auki séu til miklu ódýrari og skilvirkari leiðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

En hinn mikli kostnaður og örlitli ávinningur eru aðeins sýnishorn af því sem er brogað við lífeldsneytið. Lífeldseytið er að öllu leyti alger hryllingur. Ræktun á lífeldsneyti innan ESB fer nú fram á landsvæði á stærð við Belgíu. Öðru eins landflæmi er fórnað utan ESB til ræktunar á eldsneyti sem er svo flutt til ESB. Vatnsmagnið til ræktunar á lífeldsneyti innan ESB jafnast á við Signu og Elbu til samans.

Lomborg segir svo að þær hraðvöxnu tegundir sem notaðar eru til ræktunar til framleiðslu á lífeldsneyti gefa frá sér efni sem valda loftmengun.

En mestu máli skiptir, þegar litið er á málið frá siðferðilegu sjónarhorni, er að land sem notað er til ræktunar á eldsneyti í stað fæðu er viðurstyggð í veröld þar sem milljarður manna býr við hungur. Það er talið að á landi sem fer undir evrópskt lífeldsneyti mætti rækta fæðu fyrir 100 milljónir manna og jafnvel fyrir enn fleiri á því landi sem fer undir lífeldsneyti í Bandaríkjunum.

Sem von er veltir Björn Lomborg því fyrir sér hvernig stefna með svo hörmulegum afleiðingum fái þrifist. Ástæðuna segir hann „Big Green“ eða umhverfisiðnaðinn, fyrirtæki sem starfi undir grænu flaggi og njóti því stórkostlegra ríkisstyrkja sem séu svo notaðir til að hafa frekari áhrif á stjórnmálamenn. Þannig verður til vítisvél sem erfitt er að brjóta á bak aftur.

Al Gore hefur viðurkennt að hafa stutt löggjöf um endurnýjanlegt eldsneyti því bændur í heimaríki hans, Tennessee, höfðu hag af því og löggjöfin naut sömuleiðis vinsælda í Iowa sem er mikilvægt fyrir menn sem ætla sér að verða forseti.

Eða svo vitnað sé beint í Gore:

One of the reasons I made that mistake is that I paid particular attention to the farmers in my home state of Tennessee, and I had a certain fondness for the farmers in the state of Iowa because I was about to run for president.