Vefþjóðviljinn 354. tbl. 17. árg.
Leikskólarnir Tjarnarborg við Reykjavíkurtjörn og Öldukot við Öldugötu eru kunnir af góðu einu.
Þar hafa börn unað sér með dásamlegu starfsfólki og verið stolt af því að segja aðspurð á hvaða leikskóla þau eru. Skólarnir hafa verið undir sömu stjórn undanfarin ár án þess að séð verði að það komi að sök að þeir beri sín gömlu og góðu nöfn.
Nú hefur einhver nefndin, gott ef ekki tvær slíkar, hjá Reykjavíkurborg tekið sér það mikilvæga starf fyrir hendur að skipta um nöfn á skólunum tveimur eða öllu heldur velja þeim eitt sameiginlegt nafn. Framvegis skulu þeir báðir heita Tjörn.
Þetta er kannski ekki stórmál segir einhver. Já einmitt, hafa þessar nefndir hjá borginni ekki önnur stærri og mikilvægari mál á sinni könnu en að hræra í áratugagömlum nöfnum leikskólanna?
Samfylkingin og Björt framtíð, sem fara með stjórn borgarinnar, hafa lagt mikla áherslu á samráð og samræðu í ræðu og riti. Foreldrar leikskólabarnanna og starfsmenn skólanna lögðust mjög gegn þessari breytingu á nöfnum þeirra. Önnur eins hrina tölvupósta hefur ekki sést um nokkurt mál. En samráðið og samræðustjórnmálin eru bara skraut. Þetta reyndist flokkunum svo mikilvægt stefnumál, hreint prinsipp, að það var rekið áfram gegn eindreginni andstöðu allra sem haft var „samráð“ við.
Öldukot á því að heyra sögunni til.Tjarnarborg sömuleiðis, enda dróg mjög að 75 ára afmæli skólans og tími kominn á nýtt nafn.
Framvegis mun því fisksalinn segja bílstjóranum að skjótast nú með ýsuflökin á leikskólann Tjörn, þennan sem er ekki við tjörnina heldur á Öldugötunni.
Já ertu á leikskólanum Tjörn, litli frændi minn er einmitt þar líka. Eða var það Tjarnarborg? Þekkirðu hann ekki? Ha er það ekki skólinn við tjörnina? Nú! er hann fluttur á Öldugötu?