Vefþjóðviljinn 353. tbl. 17. árg.
Þingmennirnir Jón Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon virðast eiga samleið í þingstörfum.
Sérstaklega virðast þeir ná vel saman þegar Steingrímur leggur fram lagafrumvarp – stutt fáránlegum kröfum frá ESB – um að auka óþörf gjaldeyrisútgjöld Íslendinga. Þá færist Jón allur í aukana.
Þannig studdi Jón frumvarp Steingríms um að Íslendingar ábyrgðust Icesave skuldirnar árið 2011. Gekk Jón jafnframt hart fram gegn þeim félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum sem mótmæltu því að löglausar kröfur Evrópusambandsríkja í málinu yrðu samþykktar.
Síðasta vetur samþykkti Alþingi einum rómi og umræðulaust frumvarp Steingríms um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti sem er apað eftir ESB. Eftir að komið hefur í ljós að lögin muni leiða til algerlega óþarfra milljarða gjaldeyrisútgjalda fyrir Íslendinga hefur Jón sem formaður atvinnuveganefndar þingsins tekið til mikilla varna fyrir lögin. Honum virðist í léttu rúmi liggja að reikningur Íslendinga fyrir eldsneytisinnkaup muni hækka um milljarða króna í erlendum gjaldeyri.