Vefþjóðviljinn 352. tbl. 17. árg.
Undanfarna daga hefur mátt heyra stór orð og tilfinningaþrungin um svokallaða desemberuppbót til atvinnulausra og því lýst sem mikilli lítilmennsku að bæta ekki 250 milljónum í tóman atvinnuleysistryggingasjóð til að borga hana. Af einhverjum ástæðum höfðu fréttamenn, sem höfðu mikinn áhuga á málinu, lítinn áhuga á því að ræða hvað svokölluð desemberuppbót er, og hvort hún hafi yfirleitt verið greidd ofan á atvinnuleysisbætur. Þess vegna kom sjaldnast í fréttum að svokölluð desemberuppbót hefði almennt ekki verið greidd ofan á atvinnuleysisbætur, nánar tiltekið aðeins tvisvar í sögunni, en reyndar eru það tvö síðustu ár. Í kjarasamningum hafa vinnuveitendur og verkalýðsfélög samið um þessar greiðslur ofan á laun til vinnandi manna, en það er auðvitað ekki sjálfgert að slíkar greiðslur bætist við atvinnuleysisbætur.
En auðvitað er skiljanlegt að margir vilji að þetta sé greitt. Margir atvinnulausir hafa mjög þröng fjárráð og munar mikið um þessa peninga í desember. Og þar sem þetta var greitt síðustu tvö árin hafa menn sjálfsagt gert sér væntingar núna, og svo framvegis.
Það er hins vegar mjög mikilvægt að fækka til langs tíma þeim sem fá slíkar bætur. Atvinnulífið verður að eflast svo að sem allra flestir geti fundið sér vinnu og séð fyrir sér og sínum. Til þess þarf að létta álögum af atvinnulífinu, lækka skatta á fyrirtæki og ekki síður á vinnandi fólk, sem hefur þá meiri ráðstöfunartekjur til að versla við atvinnufyrirtækin. Skattalækkanir gagnast ótrúlega mörgum, líka þeim sem finnst náunginn aldrei borga nógu háa skatta.
Það þarf ekki aðeins að minnka opinber gjöld umtalsvert. Það þarf að draga mjög verulega úr afskiptum af atvinnulífinu og afnema ótalmargar reglur sem stjórnlyndir embættismenn og stjórnmálamenn hafa þvingað á fyrirtækin. Samfelldar kröfur, sem ætlaðar eru til að breyta einhverri tölfræði sem stjórnmálamenn og fréttamenn hafa á heilanum, valda kostnaði og fyrirhöfn og draga úr krafti og framtaki í atvinnulífinu.
Ríkið á ekki að pína fyrirtæki til að setja sér „jafnréttisáætlanir“ eða skipta sér af því hverjir eru valdir í stjórn fyrirtækja. Ríkið á ekki að senda eftirlitsmenn í verslanir og telja verðmiða á vörum, og sekta svo þau fyrirtæki sem ekki eru með nógu marga verðmiða. Ríkið á ekki að banna verslunum að selja forverðmerktar vörur og skipa þeim að setja upp svo upp skanna hér og þar í búðinni. Ríkið á ekki að hafa skoðun á því hvernig foreldrar skipta á milli sín barnauppeldi og taka sér orlof vegna þess. Þannig mætti telja mjög lengi.
Stjórnmálamenn eiga að hætta að þvinga þjóðfélagshugmyndir sínar upp á fólk sem reynir að skapa verðmæti í landinu.