Vefþjóðviljinn 351. tbl. 17. árg.
Stundum virðist sem ríkið reki stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið til þess eins hafa þykjast vera fylgjandi samkeppni og hafa einhvers konar skálkaskjól fyrir eigin einokun.
Elías Ólafsson stjórnarmaður í Gámaþjónustunni hf. skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann segir:
Fyrir um það bil sex árum hóf Gámaþjónustan að bjóða íbúum Reykjavíkur upp á Endurvinnslutunnuna en í hana má setja sjö flokka endurvinnsluefna. Tunnan er síðan losuð á fjögurra vikna fresti. Fyrir það greiða notendur fast gjald auk virðisaukaskatts.
Nokkrum misserum síðar hóf Reykjavíkurborg að bjóða upp á bláa tunnu fyrir pappír og fleira og innheimti fyrir þjónustuna með hækkuðum fasteignagjöldum og var enginn virðisaukaskattur lagður á. Gámaþjónustan benti yfirvöldum samkeppnismála á þetta en ekkert var aðhafst á þeim tíma.
Það er algerlega óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli hafi ruðst inn á þetta svið þegar einkafyrirtæki voru þegar farin að bjóða þessa þjónustu. Og hvernig fær það staðist að borgin geti sleppt því að innheimta virðisaukaskatt af þjónustunni eins og fyrirtækin sem hún keppir við verða að gera?
Elías bendir svo á að í fyrra hafi borgin hækkað almennt sorphirðugjald um 14% en lækkað gjald á bláu tunnuna um 12%. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár verður haldið áfram á þessari braut, gjaldið fyrir einokunarþjónustuna fyrir almenna sorphirðu (gráu tunnuna) verður hækkað um 10% en gjaldið fyrir þá bláu, sem er í samkeppni, verður lækkað um 2%.
Hér er borgin augljóslega að reyna að ryðja einkafyrirtæki útaf markaðnum.
Og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort hún Reykjavíkurborg noti gjöldin af gráu tunnunni til að niðurgreiða bláu tunnuna.