Vefþjóðviljinn 343. tbl. 17. árg.
Fátt er nýtt í tali íslenskra vinstrimanna um Ríkisútvarpið. Það á að fá óskerta milljarða króna frá skattgreiðendum á hverju ári. Starfsmenn þess eiga að vera kóngar í eigin ríki og skattgreiðendur eiga að borga og þakka fyrir. Þjóðkjörnir fulltrúar mega ekkert hafa um Ríkisútvarpið að segja.
En er ekki tímabært að ræða með opnum hætti hvaða hlutverk ríkið á að hafa á fjölmiðlamarkaði?
Segjum nú, rökræðunnar vegna, að allir séu sáttir um tiltekin markmið sem Ríkisútvarpinu sé í dag ætlað að ná. Íslensk menning og listir, almennt öryggi og svo framvegis. En eru menn svo vissir um að stofnunin Ríkisútvarpið sé besta leiðin til að ná því markmiði? Gríðarlegir peningar fara í rekstur stofnunarinnar. Er þeim best varið þannig?
Menn vilja styrkja íslenska menningu, umfjöllun um íslenskar listir, og svo framvegis. Gott og vel, en hvernig væri að ríkið stofnaði þá sjóð þar sem menn gætu sótt um styrki til að framleiða slíkt efni, sem svo yrði flutt á einkareknum fjölmiðli í opinni dagskrá? Þetta gætu verið frumsamin útvarps- eða sjónvarpsleikrit, ný íslensk tónverk, fræðsluþættir um tónlist, leiklist, myndlist, bókmenntir og svo framvegis. Þarna gætu menn sótt um og ákveðið gagnsæi yrði þá væntanlega ríkjandi, ólíkt því sem nú er, þegar stjórnendur Ríkisútvarpsins ákveða einfaldlega að nú skuli þessi eða hinn gera þátt um eitthvert efni. Ríkið styrkir kvikmyndagerð ekki með því að reka kvikmyndaver heldur með því styðja einkaaðila með fé úr kvikmyndasjóði. Vefþjóðviljinn mun að vísu leggjast gegn öllum slíkum sjóðum, en þeir sem vilja að ríkið styðji menninguna fengju væntanlega meira fyrir peninga annarra með þessum hætti.
Miðlun tilkynninga sem varða öryggi landsmanna, hún þarf að vera trygg. Gott og vel. Er ekki reynslan sú að einkafjölmiðlar birta slíkar tilkynningar þegar óskað er eftir? En kannski þykir mörgum það ekki nægja á neyðarstundu. En er eitthvað tæknilega því til fyrirstöðu að stjórnstöð almannavarna hafi aðgang að útsendingarbúnaði sem getur ef nauðsyn krefur rofið dagskrá annarra stöðva og birt mikilvæga tilkynningu? Það er nú ekki þannig að allir séu samfellt með Víðsjá í eyrunum hvort sem er.
En fréttastofa, verður ekki ríkið að segja landsmönnum fréttir? Ekki er nú Vefþjóðviljinn viss um það, en jafnvel þótt svo væri, þarf það að gerast á klukkustundarfresti í útvarpi og með tveimur daglegum sjónvarpsfréttatímum? Hvað kostar fréttastofa Ríkisútvarpsins á hverju ári? Er það ekki eitthvað um milljarður króna? Er þeim peningum val varið? Má ekki ræða það, æsingalaust?
Er ekki hægt að ná þeim markmiðum, sem margir segjast vilja ná með rekstri Ríkisútvarpsins, með mun ódýrari hætti? Þarf að reka rándýra stofnun, skattleggja hvert heimili um stórfé, halda úti miklum húsakosti og dýrum búnaði, til að ná þessum markmiðum?