Mánudagur 25. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 328. tbl. 17. árg.

Stórnarandstaðan er skemmtileg.

Í þessum mánuði hefur hún deilt á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir tvennt.

Í fyrsta lagi brást hún mjög illa við þegar Sigmundur svaraði forsvarsmönnum Seðlabankans því til að þeir væru komnir út í pólitík, þegar þeir vöruðu við einhverju sem tengdist hugsanlegum tillögum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum.

Þá sagði stjórnarandstaðan að stjórnmálamenn ættu ekki að gagnrýna Seðlabankann. Hann væri sjálfstæð stofnun. Það væri mjög alvarlegt ef stjórnmálamenn reyndu að grafa undan trausti Seðlabankans.

Engum fréttamanni datt í hug að rifja upp hvernig vinstriflokkarnir létu fyrir nokkrum árum þegar þeim líkaði ekki við einn af bankastjórum Seðlabankans. Var ekki fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur á forsætisráðherrastóli var að heimta það að allir seðlabankastjórarnir þrír yrðu reknir? Voru ekki næst keyrð í gegnum þingið lög um þetta baráttumál? Nú má forsætisráðherra hins vegar ekki andmæla Seðlabankamönnum, því stjórnmálamenn verða að virða sjálfstæði Seðlabankans.

Hitt atriðið er sem stjórnarandstaðan finnur að Sigmundi, er að hann sé alltaf að gagnrýna vinstristjórnina. Í gær sagði Katrín Jakobsdóttir að Sigmundur væri sífellt að kenna síðari ríkisstjórn um það sem illa gengi, og væri þannig „enn í stjórnarandstöðu í stað þess að tala til framtíðar.“

En hvernig töluðu vinstri menn á valdatíma sínum? Snerist ekki allt um það að bankarnir hefðu verið einkavæddir með röngum aðferðum í kringum aldamótin? Var ekki eitt helsta áhugamál þeirra að láta „rannsaka“ allar vindmyllurnar sem þeir hafa barist við árum saman? Drógu þeir ekki Geir Haarde fyrir landsdóm?

En þegar Sigmundur Davíð Gunnlausson minnist á nokkurra mánaða gamlan viðskilnað síðustu ríkisstjórnar, þá hann fastur í fortíðinni „í stað þess að tala til framtíðar“. Katrín Jakobsdóttir, þessi unga, hlýja og mannlega, greiddi atkvæði með því að draga Geir Haarde og þrjá aðra fyrir landsdóm, en er hneyksluð á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að tala um verk fyrri stjórnar.