Föstudagur 1. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 305. tbl. 17. árg.

Fyrir viku sagði Vefþjóðviljinn frá ákaflega mikilvægum styrkjum úr Jafnréttissjóði, vegna bráðnauðsynlegra vísindarannsókna á sviði kynjafræði. Var sérstaklega jákvætt að allir styrkþegar eru konur, svo ekki var nein hætta á kynbundnum launamun styrkþeganna.

Varla efast nokkur maður um að þeim milljónum króna, sem ríkissjóður veitti til þessara vísindarannsókna í kynjafræði, er mjög vel varið og ekkert sem ríkissjóður gæti fremur gert við peningana í núverandi árferði. Ja, nema kannski að halda „jafnréttisþing“.

En svo vel árar hjá ríkissjóði þessi misserin, þrátt fyrir miskunnarlausan niðurskurð, að ríkinu tekst einmitt að halda „jafnréttisþing“ í dag. Það verður haldið á Hilton hótelinu frá klukkan níu til fimm í dag og mjög mikilvægir fyrirlestrar verða þar haldnir.

Dagskráin er þessi:

Fanney Gunnarsdóttir formaður jafnréttisráðs mun setja þingið og flytja ávarp.

Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra mun flytja skýrslu um þróun jafnréttismála árið 2013.

Anna Kolbrún Árnadóttir formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti mun kynna tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals ÍST 85:2012.

Inge Ovesen deildarstjóri í jafnréttisráðuneyti Noregs mun flytja erindi um „Challenges and Dilemmas in Norwegian Equality Policy.“ Erindið verður æsispennandi og er jafnvel talið að til standi að gera kvikmynd eftir því.

Gyða Margrét Pétursdóttir lektor í kynjafræðum við Háskóla Íslands mun flytja fyrirlestur sem hún nefnir „Frelsisbylgjur og mótbárur“.
Svo verða haldnar sex málstofur, allar mjög mikilvægar. Má þar nefna málstofuna „Allar krónur eru kynjakrónur. Um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð“, en einnig er „Meira sundur en saman. Um orskakir og afleiðingar hins kynskipta vinnumarkaðar“ mjög mikilvæg.

Að málstofum loknum mun Edda Björgvinsdóttir leikkona flytja erindið „Húmor og gleði í leik og starfi er dauðans alvara … líka í jafnréttisbaráttu.“ og verður eflaust ekki vanþörf á. 

Að lokum mun Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, sem er ákaflega mikilvæg ríkisstofnun, annast samantekt og þingslit.

Þeim peningum sem ríkissjóður ver til að halda þingið er geysilega vel varið. Það væri ekki hægt að verja þeim betur.

Enginn þingmaður mun leggja fram fyrirspurn til ráðherra um kostnað við þingið enda enginn einasti þingmaður á móti því að halda svo mikilvægt þing á þessum tíma.