Vefþjóðviljinn 270. tbl. 17. árg.
Verslunin Kostur birtir í dag athyglisverða blaðaauglýsingu. Þar sundurliðar verslunin söluverð kílós af sykri út úr búðinni. Útsöluverðið er 389 krónur og af því fær verslunin ekki neitt og raunar minna en það því hún greiðir 17 krónur með hverju kílói. Innkaupsverðið er 160 krónur og flutningskostnaður 19 krónur, allt í lagi með það. En svo fara 202 krónur í tolla og gjöld og svo 26 krónur í virðisaukaskatt. Þegar viðskiptavinur kaupir kíló af sykri greiðir hann því 389 krónur, ríkið fær 228 krónur en verslunin ekki neitt.
Á síðasta kjörtímabili lagði vinstristjórnin á svonefndan sykurskatt. Hann er dæmi um tilraunir stjórnlyndra stjórnmálamanna til að stjórna lífi fólks. Baráttumenn og embættismenn segja ráðherrum að fólk borði of mikinn sykur. Það sé slæmt og því eigi ríkið að skipta sér af því. Eftir nokkur ár af þrýstingi í þessa veru er skyndilega kominn á sykurskattur.
Það þarf að hugsa verkefni hins opinbera upp á nýtt. Ríkið á að hætta að skipta sér af því hvernig fólk lifir lífi sínu, svo lengi sem það brýtur ekki á öðru fólki. Frjálst fólk á að ráða hvort það borðar feitan eða magran mat, reykir eða reykir ekki, gengur í skjólfatnaði í kulda eða ekki, hvernig það semur um kaup og kjör, hvernig það velur í stjórnir fyrirtækja og svo framvegis. Það að mega taka ákvarðanir um eigið líf, byggðar á eigin dómgreind, er stór hluti af því að vera frjáls maður. Jafnvel þótt ákvarðanirnar reynist síðar í einhverjum skilningi rangar, þá voru þær þó manns eigin.
Ef ríkið léti sér nægja það fé sem það þyrfti til að sinna þeim verkefnum sem eftir stæðu þegar óþörf afskipti af daglegu lífi og vali fólks væru horfin, þá mætti lækka opinberar álögur mjög verulega. Og það myndi bæta lífskjör allra, því allir borga skatta. Barnið sem fer út í sjoppu og kaupir sér síríuslengju, þarf í raun að borga sykurskatt vinstrigrænna.