Vefþjóðviljinn 269. tbl. 17. árg.
Meðal efnis í nýútkomnu hausthefti Þjóðmála er grein Óla Björns Kárasonar um verkefni hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Björn Bjarnason skrifar af vettvangi stjórnmálanna í greininni „Úr viðjum ESB-viðræðna til vestnorrænnar forystu“. Bjarni Jónsson fjallar um „ógöngur hins opinbera“ á undanförnum árum og hvernig snúa eigi af þeirri braut.
Hannes H. Gissurarson segir frá nýlegu þingi Mont Pélerin-samtakanna á Galapagos-eyjum og uppgötvar óvænt Íslandstengsl á framandi slóðum. Vilhjálmur Bjarnason fjallar um skýrsluna um Íbúðalánasjóð og tekur fyrrverandi ríkisendurskoðanad til bæna. Jónas Ragnarsson segir frá fréttaflutningi á Íslandi af drápinu á Kennedy Bandaríkjaforseta fyrir 50 árum. Kristinn Ingi Jónsson fjallar um lífeyrissjóði í ólgusjó.
Jóhann J. Ólafsson skrifar um endurúthlutunarþjóðfélagið. Jóhann varpar fram þessari skýringu á því litla trausti sem Alþingi nýtur:
Í þjóðfélagi okkar er helmingur tekna þjóðfélagsins greiddur til hins opinbera og endurúthlutað. Slíkt þjóðfélag stenst ekki og hlýtur að hrynja fyrr eða síðar, vegna þess að útilokað er að hægt sé að úthluta svo miklu fé þannig að nógu stór hópur landsmanna verði ánægður með úthlutunina. Þvert á móti vex óánægjan stöðugt. Hið litla traust, 10%, sem menn bera til Alþingis er birtingarmynd þessa.
Já er hernaður þingsins gegn skattgreiðendum nokkuð lakari skýring á litlu trausti en svonefndur skotgrafarhernaður þingmanna gegn hver öðrum?
Jakob F. Ásgeirsson skrifar um Bandaríkjaflug Loftleiða og „sjálfsmynd“ Íslendinga. Björn Bjarnason segir frá kvæði Matthíasar Johannessen, „Í Skálholtskirkju“, en kvæðið er birt í heild sinni í heftinu. Jafnframt er birt brot úr nýjum eftirmála Barböru Demick úr 2. útgáfu bókar hennar um daglegt líf í Norður-Kóreu, Engan þarf að öfunda. Í bókadómum fjallar Björn Bjarnason um bókina Ísland ehf.
Þjóðmál kosta 1.500 kr. í lausasölu en ársáskrift kostar 5.000 kr. Stök hefti og áskrift fást í Bóksölu Andríkis.