Laugardagur 7. september 2013

Vefþjóðviljinn 250. tbl. 17. árg.

Kort sem sýnir þær rútuleiðir sem hreina vinstristjórnin þjóðnýtti.
Kort sem sýnir þær rútuleiðir sem hreina vinstristjórnin þjóðnýtti.

Strætisvagnarekstur hefur um árabil sligað rekstur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og síðustu ár hefur ríkisvaldið einnig lagt fé í hítina. Milljörðum króna af skattfé almennings er árlega kastað í þennan rekstur. 

Enginn veit hvort strætisvagnaþjónusta væri betri eða verri án þessa fjárausturs og afskipta hins opinbera en einkaaðilar hafa ekki fengið að reyna sig við þennan rekstur í höfuðborginni frá árinu 1944. 

Eitt af meistaraverkum hreinu vinstristjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var að þjóðnýta rútuferðir vítt og breitt um landið og narra sveitarfélög til að taka reksturinn upp á arma sína, eins og verið hefur á höfuðborgarsvæðinu. Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í Geir Kristin Aðalsteinsson, formann Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum um stöðuna á þjóðnýtingunni ári eftir að hún fór fram:

Við þurfum að greiða verktakanum sem sér um keyrsluna á svæðinu 4 milljónir króna á þriðjudaginn og þeir peningar eru ekki til. Það blasir því við okkur greiðsluþrot.