Föstudagur 6. september 2013

Vefþjóðviljinn 249. tbl. 17. árg.

Þeir sem fá allar sínar fréttir frá fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa ekki enn frétt af því að forseti Íslands hafi opinberlega fullyrt að fréttastofa Ríkisútvarpsins ynni markvisst gegn sér.
Þeir sem fá allar sínar fréttir frá fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa ekki enn frétt af því að forseti Íslands hafi opinberlega fullyrt að fréttastofa Ríkisútvarpsins ynni markvisst gegn sér.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins, þessi sem ekki má gagnrýna, sagði í fyrradag furðulega frétt um að maður nokkur, sem ákærður hefur verið fyrir fjársvik, hefði áður verið dæmdur fyrir slíkt, en ekki þurft að fara í fangelsi þar sem að „forseti Íslands“ hefði náðað hann. En eins og allir eiga að vita og meðal annars Björn Bjarnason benti strax á, tekur forseti Íslands ekki ákvörðun um náðun. 

Stjórnarskráin notar auðvitað það orðalag að forseti Íslands geri eitt og annað. En stjórnarskráin segir líka að það sé ráðherra en ekki forseti sem fari með vald forsetans. Forseti Íslands fer ekki persónulega með það vald sem stjórnarskráin segir að „forseti“ fari með. 

En hvernig stendur þá á því að fréttamenn Ríkisútvarpsins fullyrða að forseti Íslands hafi náðað þennan mann? Vita þeir ekki betur? Að vísu hefur síðasta áratuginn breiðst út mikill misskilningur á embætti forseta Íslands og sumir sem halda að hann ráði sjálfur einhverju um það sem stjórnarskráin segir að „forseti“ geri. En auðvitað verður að ætlast til þess af fréttamönnum að þeir þekki skýr ákvæði stjórnarskrárinnar: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“ og „Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.“

En hvers vegna ætli fréttastofan hafi þá sagt áheyrendum sínum að „forseti Íslands“ hafi náðað þennan dæmda náunga? Ætli það tengist eitthvað harðri gagnrýni forsetans á fréttastofuna fyrir rúmu ári? Þá setti forseti Íslands opinberlega fram mjög harða gagnrýni á framgöngu fréttastofu Ríkisútvarpsins og taldi fréttastofuna hafa unnið „markvisst“ gegn sér. 

Og hvernig brást fréttastofa Ríkisútvarpsins við harðri gagnrýni forsetans? Við því er einfalt svar. Hún sagði ekki einu sinni frá henni. Þeir sem fá allar sínar fréttir frá fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa ekki enn frétt af því að forseti Íslands hafi opinberlega fullyrt að fréttastofa Ríkisútvarpsins ynni markvisst gegn sér. Hvort sem þær ásakanir forsetans voru réttar eða rangar þá er óumdeilanlegt að þær voru fréttnæmar. Engu að síður þagði fréttastofan algerlega um þær. Hverjum getur fundist það eðlilegt? Hvaða eðlilega „fréttamat“ réði því að fréttastofan ákvað að segja aldrei frá gagnrýni forseta Íslands á hana sjálfa? Ætli hún hefði þagað ef forsetinn hefði gagnrýnt einhverja aðra opinbera stofnun harðlega?

En auðvitað svarar „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins ekki gagnrýni með öðru en þögn eða skætingi.