Vefþjóðviljinn 247. tbl. 17. árg.
Um síðustu helgi ræddi Kolbrún Bergþórsdóttur við Lindu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Baðhússins, í Morgunblaðinu. Meðal þess sem Linda var spurð um var sú gagnrýni á fegurðarsamkeppni sem áberandi hefur verið undanfarið og hvort Linda sæi eftir að hafa tekið þátt í slíkri keppni. Linda svaraði því svo:
Nei, alls ekki. Ég vil helst ekki tengjast þessari umræðu því mér finnst hún á svo lágu plani. Það sem ég vil segja í sambandi við þetta er að mér finnst furðulegt að konur sem eru að berjast fyrir réttindum kvenna kjósi á sama tíma að fara gegn konum sem taka aðrar ákvarðanir en þær sjálfar og tala niður til þeirra. Mér finnst það ekki rétt og er ósammála þeirri aðferð. Mér finnst að hver og einn einstaklingur eigi að ráða sínu lífi og hvaða leiðir viðkomandi kýs.
Hér má taka undir með Lindu. Margir virðast hreinlega annað hvort ekki skilja eða ekki þola að aðrir hafi annað gildismat en þeir sjálfir. Það sé raunar svo fráleitt að þeir hljóti helst að vera þrælar. Sumt vilji bara enginn maður og þess vegna hljóti þeir, sem stunda það, að gera það gegn vilja sínum.
Það er mikilvægt að berjast gegn forsjárhyggjuliðinu sem vill neyða gildismati sínu upp á aðra. Á sem allra flestum sviðum á einstaklingurinn að vera frjáls að því að taka eigin ákvarðanir um eigið líf, hvort sem einhverjum öðrum þykja þær ákvarðanir skynsamlegar eða gæfulegar. Það, að mega taka slíkar ákvarðanir, er hluti af því að vera frjáls maður. Fegurðarsamkeppni, reykingar, grænmetisát, þungarokk, áhættuleikur, nektardans, fjallgöngur og svo framvegis. Frjáls maður á að fá að taka eigin ákvarðanir um eigið líf.
Þeir sem öðru hverju reiðast yfir fegurðarsamkeppni ættu að hugga sig við það, að enginn er neyddur til þátttöku í slíkri keppni. Og þeir einu sem vitað er til að niðurlægi sig vegna slíkrar keppni, eru einhverjir sem froðufella úti í bæ.