Vefþjóðviljinn 243. tbl. 17. árg.
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því á síðu 2 að innar í blaðinu segi „meðal annars frá konu sem var seld í vændi þegar hún var aðeins tólf ára gömul.“ Það er umsjónarkona Kristínarhúss sem leggur þennan fróðleik til við lesendur blaðsins.
Er ekki umræðan um vændi gersamlega komin út fyrir öll velsæmismörk þegar að er kallað vændi að 12 ára barn sé selt sem þræll og því nauðgað?
Væri það nefnt saumaskapur ef barni væri haldið í ánauð á saumastofu? Myndu menn kalla barnið fórnarlamb þrældóms og sauma? Og þá væntanlega gera saumaskap ólöglegan?
Það er til fólk, bæði konur og karlar, sem veitir kynlífsþjónustu án nauðungar. Það er vændi. Ýmsum kann að þykja það skelfilegt starf og óskiljanlegt með öllu. En slíkt hugarangur ætti ekki að duga sem réttlæting fyrir því að banna öðru fólki að sinna slíku starfi.
Og hvort ætli slíkt starf verði bærilegra eður ei við að það sé lagt að jöfnu við glæpi á borð við þrælahald og ofbeldi gegn börnum?