Miðvikudagur 21. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 233. tbl. 17. árg.

Undanfarna daga hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins hamast í Evrópumálum. Fréttatímar hefjast á viðtali við Evrópusinna dagsins, sem telur að halda verði þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi afturkallar inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Einn daginn er talað við Össur Skarphéðinsson, svo Benedikt Jóhannesson og næst Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Fræðileg viðtöl við Eirík Bergmann Einarsson og Baldur Þórhallsson eru varla langt undan.

Nú síðast gerði Ríkisútvarpið mikla frétt um að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra væri bara ekki búinn að svara fyrirspurn Árna Páls Árnasonar ótvíræðs formanns Samfylkingarinnar um stöðu inngöngubeiðninnar. Eins og Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður bendir á þurftu menn á síðasta kjörtímabili að bíða mánuðum saman eftir svörum við fyrirspurnum. Ekki hafi fréttastofu Ríkisútvarpsins þótt það sérstaklega fréttnæmt.

Núna situr þingið ekki einu sinni, svo ekki eru spurningar Árna Páls formlegar spurningar þingmanns til ráðherra. En samt fer það í hádegisfréttir Ríkisútvarpsins að svörin hafi bara ekki borist.

Og hversu gamlar eru nú fyrirspurnir Árna Páls, sem fréttastofa Ríkisútvarpsins gerir frétt um að ekki hafi enn verið svarað?

Þær eru tveggja daga gamlar. Og nú er ágúst og þingið situr ekki einu sinni.

Tveggja daga gamlar og það er frétt í Ríkisútvarpinu.

Það þarf enginn að undrast að áköfustu Evrópusinnar landsins megi ekki til þess hugsa að slagsíðan hverfi af Ríkisútvarpinu.