Vefþjóðviljinn 232. tbl. 17. árg.
Tvennt er einkum nefnt upphátt þegar menn ákveða að „vernda“ Íslendinga fyrir erlendum mat, ekki síst kjöti. Annars vegar vilja menn verja innlenda framleiðslu gegn erlendri en víða um heim er landbúnaður styrktur af skattgreiðendum. Engin virðist vilja verða fyrstur til þess að láta aðrar þjóðir niðurgreiða matinn ofan í sig án þess að niðurgreiða eitthvað á móti. Hins vegar nefna menn hættuna á því að sjúkdómar berist milli landa sem gæti átt við ef um hrátt kjöt væri að ræða.
Vefþjóðviljinn rakst á dögunum á úrbeinað og eldað andakjöt í verslun. Enginn virðist sinna andarækt hér á landi og þetta kjöt er búið að elda.
Þessi 600 grömm af brabra kosta tæpar 3.000 krónur. En þar af eru um 1.000 krónur í tolla og tengd gjöld og tæpar 200 krónur í virðisaukaskatt. Ríkið hirðir því ríflega 1.200 krónur af þessari girnilegu fjölskyldumáltíð sem gæti annars verið snædd á hvaða heimili landsins sem er.
Vísitala til verðtryggingar á skuldum heimilanna myndi jafnframt lækka ef tollarnir væru felldir niður.
Hvernig var þetta aftur sagt fyrir kosningar: Við verðum að þora að standa með fjölskyldunum og heimilunum.