Fimmtudagur 15. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 227. tbl. 17. árg.

Opinbert og lögbundið eftirlit með fyrirtækjum er ekki síst réttlætt með hagsmunum almennings, neytenda. Líkt og frægt er þá er slíkt eftirlit aldrei lagt af, jafnvel þótt það teljist hafa brugðist, heldur er viðkomandi eftirlitsstofnun verðlaunuð með auknu fé, fleiri starfsmönnum og nýju húsnæði.

En eftirliti fylgir alltaf kostnaður. Oft er þessi kostnaður fastur þannig að lítil fyrirtæki greiða jafn mikið og stór. Þessi kostnaður er einnig hindrun fyrir ný fyrirtæki.

Í frétt á vef Viðskiptablaðsins í fyrradag er sagt frá því að tvö verðbréfafyrirtæki ætli að sameinast. Þá segir framkvæmdastjóri annars þeirra:

helst horft til þess að við sameiningu muni margs konar kostnaður lækka um helming, svo sem leyfisgjöld og kostnaður við endurskoðun auk annarra þátta.

Skýrar verður það ekki orðað að eftirlitskostnaður ýtir litlum fyrirtækjum út í sameiningu og gerir nýjum félögum erfitt fyrir.

Um leið rekur þó ríkið sérstaka eftirlitsstofnun, Samkeppniseftirlitið, sem vinnur eftir þeirri kennisetningu að sameining og fækkun fyrirtækja sé slæm fyrir neytendur.