Vefþjóðviljinn 226. tbl. 17. árg.
Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs sagði frá því nýlega á heimasíðu sinni að hann hefði í sumar tekið að aka leigubifreið dularklæddur, til þess að heyra frá fyrstu hendi hvað raunverulegum Norðmönnum fyndist um helstu mál. Með fylgdu myndbandsupptökur af samtölum Stoltenbergs við grunlausa farþega sína. Þetta þótti ýmsum sýna hversu sniðugur og alþýðlegur Stoltenberg væri og vatn á myllu hans, mánuði fyrir þingkosningar.
En svo kom í ljós að farþegarnir voru ekki venjulegir farþegar heldur borgaði Verkamannaflokkurinn nokkrum þeirra fyrir. Málið varð því að dæmi um sýndarmennsku og lýðskrum norskra krata en ekki um það hversu Stoltenberg væri nútímalegur og snjall.
Þetta nær næstum því árangri Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur haustið 2008. Þá birtist skyndilega tilkynning um að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem fæstir höfðu þá heyrt nefnda, hefði sagt sig úr bankaráði seðlabankans og jafnframt sagst „biðja þjóðina afsökunar á því að hafa ekki axlað sína ábyrgð fyrr.“ Um leið birtust hástemmd ummæli kunnra álitsgjafa krata, þar sem hún var lofuð hástöfum fyrir þetta einstæða framtak. Næsta sem gerðist var að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, nýbúinn að biðja „þjóðina afsökunar á því að hafa ekki axlað sína ábyrgð fyrr“, bauð sig fram til þings. Eftir alla kynninguna, sem „afsögnin“ hafði fengið, náði hún háu sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar, enda lýðskrum ekki óvinsælt þar.
Auðvitað blasir við, að ef hún hefði í raun ekki talið sig verðskulda sæti í bankaráði og meira að segja skulda „þjóðinni“ sérstaka afsökunarbeiðni fyrir að „hafa ekki axlað ábyrgð sína fyrr“, þá hefði hún varla skömmu síðar talið sig eiga þingsæti skilið. En fjölmiðlar tóku þetta allt gott og gilt. Þeir slógu upp „afsögninni“ og afsökunarbeiðninni til „þjóðarinnar“ og sáu svo ekkert að því að hinn iðrandi bankaráðsmaður færi í næsta prófkjör og svo beint á þing.
Á þingi skammaði hún svo stjórnarandstöðuna fyrir að hafa eytt „180 dýrmætum klukkustundum af starfstíma Alþingis“ í að „berja hausnum við steininn“ með því að berjast gegn Icesave II. Ekki hefur hún enn beðist afsökunar á því, en það bíður ef til vill næsta prófkjörs.