Mánudagur 12. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 224. tbl. 17. árg.

Hvað ætli nýju ráðherrarnir séu að gera þessar vikurnar? Það er ekki eins og þeir hafi tekið við völdum eftir farsæla ríkisstjórn samherja. Þeir tóku við af afar slæmri ríkisstjórn sem hafði í rúm fjögur ár reynt að bylta sem flestu því sem vel hafði reynst, og setja slæmt mark sitt á sem flest svið. Það má því ætla að nýir ráðherrar, hertir úr stjórnarandstöðu, taki til óspilltra málanna með harðsnúinni sveit rammpólitískra samherja, við að bæta úr því versta sem fyrri ráðamenn gerðu. Þó ekkert hafi enn frést af slíkum aðgerðum þá hlýtur að vera mjög stutt í það. Ráðherrarnir hafa einfaldlega unnið bak við tjöldin að þessu frá því að þeir tóku við. Eitt er að minnsta kosti víst og það er að enginn þeirra hefur farið í sumarfrí við þessar aðstæður. 

Það þarf að fara yfir allar lagabreytingar sem vinstristjórnin stóð fyrir. Flestar voru þær þess eðlis að afturkalla þarf þær með nýjum lögum hið allra fyrsta. Sérstaklega verður að fara yfir allar þær lagabreytingar sem keyrðar voru í gegnum þingið með þeim fullyrðingum að um „EES-reglur“ væri að ræða. Kanna verður vandlega hvort sú hafi verið raunin, eða hvort lagabreytingarnar hafi í raun verið vegna aðlögunarinnar að Evrópusambandinu. Enginn vafi er á því að allir ráðherrarnir hafa í sumar látið vinna slíka vinnu, hver í sínu ráðuneyti. Niðurstaðan verður fjölmörg frumvarp strax á upphafsdögum þings í haust, þar sem aðlögunarlögin verða felld úr gildi.

Og svo þarf að vinda sér í atriði sem sumum þykir eflaust táknrænt, að breyta aftur nafni ráðuneytanna. Menntamálaráðuneytið á auðvitað að heita aftur menntamálaráðuneytið, en ekki mennta- og menningarráðuneytið. Fjármálaráðherra á að vera fjármálaráðherra en ekki fjármála- og efnahagsráðherra. Vinstristjórnin, sem náði völdum eftir óeirðir, leit auðvitað á sig sem byltingarstjórn og vildi því gera bæði raunverulegar breytingar og táknrænar. Nafnbreyting til baka er skilaboð um að óeirðatímanum sé lokið.

Það verður að slíta aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið tafarlaust, því svo lengi sem það er ekki gert þá er Ísland ennþá „umsóknarríki“, eins og Evrópusinnarnir heimta að það sé. Alþingi á að taka af skarið þegar í haust um að inngöngubeiðnin sé afturkölluð, jafnvel þótt Benedikt Jóhannesson verði reiður.

Og það verður að taka af skarið um að ruglið sem var sett saman, með skammarlegum aðdraganda, til atlögu að stjórnarskrá lýðveldisins, sé úr sögunni. Það gengur ekki að bjóða upp á það, að „allt“ sem gert hafi verið á síðustu árum til „endurskoðunar á stjórnarskránni“ muni „nýtast í framhaldinu“. Skammarlegt ofstæki fyrri ráðamanna getur ekki verið þar á meðal. Núverandi stjórnvöld eiga að vera menn til að segja það beint út.

Þannig má lengi telja áfram. Verkefnin eru ótalmörg og þau kalla á stjórnmálamenn sem ekki hræðast átök. Þess vegna treysta menn því að ráðherrarnir séu komnir til þess að slást við vinstrimennskuna, en ekki til þess að fá hrós álitsgjafa vinstrimanna.