Vefþjóðviljinn 218. tbl. 17. árg.
Vefþjóðviljinn hefur af og til leyft sér að vara við því að hjólreiðum sé stillt upp gegn akstri einkabíls. Ímugust ákveðinna stjórnmálamanna á því frelsi sem einkabíllinn veitir mönnum hefur því miður leitt þá út á þá braut að tefja fyrir bílstjórum í nafni hjólreiða.
Glöggt dæmi um þetta má sjá á Hofsvallagötunni, Suðurgötu, Lönguhlíð, Snorrabraut og víðar.
Og hverju svara menn þessum varnaðarorðum? Jú Vefþjóðviljinn er á móti hjólreiðum!
Egill Helgason hjá Ríkisútvarpinu gerir þetta í pistli á Eyjunni í gær. Þar segir hann að mikil reiðhjólavakning hafi orðið hjá breskum íhaldsmönnum og af þeim geti menn á Vefþjóðviljanum lært og nefnir David Cameron því til sanninda.
Þetta var ekki alveg nógu gott dæmi hjá Agli því fáir hafa stigið fastar á hræsnifótstigin er umræddur Cameron. Hann hefur grobbað sig af því að hjóla til vinnu en lætur svo bíl fylgja sér með skóna sína, (hreina) skyrtu og skjalatöskuna.
Egill hefði allt eins getað nefnt Árna Þór Sigurðsson fyrrum formann samgögnunefndar og forseta borgarstjórnar Reykjavíkur sem hvatti borgarbúa til að „skilja bílinn eftir heima“ á „bíllausa daginn“ sem borgarstjórnin hélt hátíðlegan. Árni Þór gekk á undan með góðu fordæmi, skildi bílinn eftir heima en fór ferða sinna á embættisbifreið forseta borgarstjórnar.