Vefþjóðviljinn 217. tbl. 17. árg.
Hvaða ályktun á að draga af könnunum sem gefa til kynna að það sé næstum því nákvæmlega sama hlutfall landsmanna sem skuldar verðtryggt húsnæðislán og vill að ríkissjóður verði notaður til að lækka verðtryggðar „skuldir heimilanna“?
Auðvitað má láta sig dreyma um að slíkt sé tilviljun. En hinn möguleikinn er þó ekki útilokaður, að skoðanir margra á málefninu ráðist einfaldlega af eigin hagsmunum. Slíkt væri ekki alger nýjung.
Síðustu þingkosningar mörkuðu hugsanlega þáttaskil að þessu leyti. Auðvitað hefur það þó alltaf verið þannig að flokkarnir hafa gefið ýmis einstök loforð, sem ætlað er að höfða sérstaklega til ákveðinna kjósenda: Kjóstu okkur og við hækkum atvinnuleysisbæturnar þínar, segir einn flokkur við kjósandann. En kjóst þú okkur, því við lækkum tekjuskattinn þinn, segir annar flokkur þá við næsta kjósanda. Bæði kjósandinn á bótunum og sá á laununum telja svo einmitt bæði Réttlátt og Sanngjarnt að það verði gert sem þeim kemur best.
Þetta hefur alltaf gerst í einhverjum mæli. Menn lofa jarðgöngum, tónlistarhúsi og afnámi virðisaukaskatts á barnafötum sem framleidd eru í Bangladesh, og einhverjir velja flokk út af einhverju slíku loforði. En lengi vel kusu mjög margir eftir grundvallarsjónarmiðum, og hlupu ekki til eins og kaupóðir á útsölu þótt þeir heyrðu eitthvert gylliboð frá öðrum flokkum. En þetta kann að vera að breytast.
Nú þykir mjög flott að vera ekki „flokkshollur“. Þó er það svo að „flokkshollustan“ var í raun ekki við flokk heldur við grundvallarsjónarmið. Og þeir sem verst tala um „flokkshollustu“ eru líklega yfirleitt þeir sem engin grundvallarsjónarmið hafa. Þeim finnst eðlilegt að kjósa einn í dag og allt annan á morgun, svona eftir persónulegri stemmingu sinni á kjördag.
Og annað sem gæti hafa breyst, er fjöldi þeirra sem sér ekkert athugavert við að leggjast yfir kosningaloforðin með reiknivél, með eigið veski í huga. Þeir sem halda að kosningar séu hugsaðar til þess að kjósandinn haldi uppboð á atkvæðinu sínu.