Helgarsprokið 4. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 216. tbl. 17. árg.

Hjólreiðamenn forðast að hjóla á hálli götumálningu. En borgarstjórn Reykjavíkur þarf að sýna áhuga sinn á hjólreiðum og gerir það með skrautlegri málningu og fánum á Hofsvallagötu. Minna má það ekki vera til að sýna áhugann á hjólreiðum og tefja um leið fyrir einkabílnum.
Hjólreiðamenn forðast að hjóla á hálli götumálningu. En borgarstjórn Reykjavíkur þarf að sýna áhuga sinn á hjólreiðum og gerir það með skrautlegri málningu og fánum á Hofsvallagötu. Minna má það ekki vera til að sýna áhugann á hjólreiðum og tefja um leið fyrir einkabílnum.

Hjólreiðamönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur vafalítið fjölgað verulega undanfarin áratug. Fyrir því mega vera nokkrar ástæður:

Betra veður. Hin óvenju mildu sumur undanfarinn áratug hafa glætt áhuga manna á hvers kyns útivist.

Meira skjól af byggingum og gróðri í úthverfum. Eins og Haraldur Ólafsson veðurfræðingur hefur bent á er orðið skjólbetra inni í borginni vegna bygginga og aukins gróðurs í  útjaðri hennar. Milt veður hefur auðvitað hjálpað til við að pota gróðrinum upp á við. Einhver myndi því kannski orða það svo að gróðurhúsaáhrif og dreifing byggðar hafi bætt skilyrði hjólreiðamanna í Reykjavík!

Létt og góð hjól. Reiðhjól hafa tekið miklum framförum. Þar munar ekki síst um léttari efni en einnig betri gíra, bremsur og dekk. Úrval hjóla hefur snaraukist og menn eiga jafnvel hjól fyrir mismunandi tilefni.

Hjólaföt. Annar útbúnaðar hjólreiðamanna en hjólin sjálf hefur einnig gjörbreyst. Gefjunarúlpa, lopapeysa, snjóþvegnar og Adidas Universal voru ekki meðfærilegustu hjólafötin þótt leitun sé að fallegri samsetningu. Nú eru í boði fislétt en hlý föt sem hleypa raka út en hvorki regni né roki inn.

Þeim fækkar sem vinna líkamlega erfiðisvinnu. Hvers kyns vélvæðing og sjálfvirkni fækkar þeim sem vinna slíka líkamlega erfiðisvinnu að þeir eru ekki spenntir fyrir 10 km hjólaspretti í upphafi og við lok vinnudags. Að sama skapi hefur þeim fjölgað sem sitja og stara á tölvuskjái dagana langa. Þeim þykir ágætt að reyna aðeins á kroppinn fyrir og eftir vinnu.

Þjónusta um síma og internetið hefur stækkað þann hóp sem sjaldan þarf að taka á móti viðskiptavinum sínum. Það dregur úr þörfinni á því að vera vel til hafður í vinnunni. Forritarinn á bak við netbankann þarf ekki að vera í gjaldkeradragt heldur getur leyft sér að vera í einhverju sem dugar á hjólið.

Fall krónunnar, hækkun eldsneytisskatta og hækkun á olíuverði á heimsmarkaði hafa svo lagst á eitt um menn huga að öðrum kostum en þeim sem fylgja olíukaup.

Þetta eru helstu ástæður en sjálfsagt myndu einhverjir vilja bæta við að hjólreiðastígum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu. En það er kannski fremur afleiðing af hinum aukna áhuga á hjólreiðum en ástæðan fyrir honum.

Sumir stjórnmálamenn hafa vitaskuld reynt að eigna sér heiðurinn af þessum aukna áhuga með því að tala í sífellu um hjólreiðar en ekki síður með því að nýta færið til að fá útrás fyrir hatur sitt á einkabílnum og pirringinn yfir því frelsi sem hann veitir fólki til velja sér vinnu, áhugamál og til ferðalaga um landið.

Á Hofsvallagötu má nú sjá glöggt dæmi um hvert þessi sjálfsupphafning og forsjárhyggja er að leiða borgarstjórnina í Reykjavík. Áður fór það ekki framhjá bílstjórum og hjólreiðamönnum ef barn klætt áberandi litum var við götuna. Eftir að gatan hefur verið máluð í skærum litum og alls kyns fánum og blómastömpum verður bætt í götuna verður margt annað sem glepur auga vegfarenda.