Vefþjóðviljinn 210. tbl. 17. árg.
Einn af hverjum tuttugu skattframteljendum stendur ekki undir þeirri nafnbót og telur ekki fram. Skattstjóri áætlar því tekjur þessa hóps þegar hann gefur út álagningarskrá sína í júlílok ár hvert.
Hluti framteljenda gerir svo mistök af ýmsu tagi sem verða ekki leiðrétt fyrr en síðar í haust.
Þúsundir manna hafa tekið út séreignarsparnað sinn á liðnum árum. Hann kemur fram í álagningarskrá sem hverjar aðrar tekjur. Maður sem hefur 400 þúsund á mánuði í laun í vinnu sinni en leysti út 2,4 milljónir króna af séreignarsparnaði sínum á síðasta ári lítur því út fyrir að vera með 600 þúsund í laun á mánuði þegar skattstjóri leggur fram skrá sína.
Margir hafa tímabundnar tekjur vegna sölu á eignum og lenda á sérstökum „hákarlalista“ skattstjórans þótt ævitekjurnar séu ekki endilega glæsilegar.
Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá eru gefin út „tekjublöð“ þar sem þessar óáreiðanlegu tölur úr álagningarskránni eru matreiddar og seldar fólki sem gagnlegar upplýsingar um kaup og kjör manna í landinu.