Vefþjóðviljinn 209. tbl. 17. árg.
Verslunarmannahelgin verður eftir viku. Þá mun stór hluti landsmanna leggja land undir fót, tjaldsvæði og sundlaugar fyllast úti um landið, en heilu hverfin á höfuðborgarsvæðinu verða fámenn. Reynslan sýnir að sumir færa sér það í nyt.
Dagana fyrir helgina munu fulltrúar lögreglunnar verða tíðir gestir í fjölmiðlum og ráðleggja væntanlegum ferðalöngum: Lokið öllum gluggum, læsið útidyrnum vandlega. Hafið ekki dregið fyrir alla glugga. Fáið vini eða nágranna til að fylgjast með. Innbrotsþjófar fara á stjá um ferðahelgarnar.
Slíkar ráðleggingar hafa heyrst fyrir hverja einustu verslunarmannahelgi í mörg ár. Þetta eru skynsamlegar ráðleggingar enda ber hverjum manni að gæta að sér og sínu.
Ekki er vitað til þess að nokkrum manni hafi enn sem komið er dottið í hug að með slíkum ráðleggingum sé verið að „taka ábyrgðina frá innbrotsþjófinum“. Flestir skilja að þó gefnar séu slíkar ráðleggingar um hvernig menn geta minnkað líkurnar á því að verða fyrir glæp, þá er glæpamaðurinn ekki gerður ábyrgðarlaus á glæpnum.
Það er ekkert að því að hvetja aðra til að fara varlega. Sá sem segir öðrum að skilja ekki bílinn sinn eftir ólæstan í vafasömu hverfi, er ekki með því að segja að það sé allt í lagi að stela úr ólæstum bíl. Sá sem segir félaga sínum að skilja ekki peningaveskið sitt eftir á barborðinu á meðan hann skreppur út að reykja, er ekki að segja að það sé í lagi að stela óvörðum peningjaveskjum.
Þetta er alveg augljóst og eiginlega óskiljanlegt að haft sé langt mál um þetta.
En þrátt fyrir að flestir skilji þetta, þá er oft að heyra eins og ein tegund ráðlegginga sé alveg óheimil í landi rétttrúnaðar og fyrirskipaðrar hugsunar. Sumir verða alveg bálreiðir ef þeir heyra ráðleggingar til ungs fólks um hvernig það geti verið öruggara fyrir kynferðisbrotum.
Fyrir verslunarmannahelgi er fólk ekki aðeins hvatt til að loka gluggum og læsa hurðum. Ungt fólk á leið á útihátíð er einnig hvatt til að gæta sín og vina sinna. Drekka sig ekki rænulaust og ef menn sjá vin sinn eða vinkonu sem orðin er ósjálfbjarga af drykkju að koma þeim í tjald og gæta þeirra. Þetta eru sjálfsagðar ráðleggingar en engu að síður eru þeir til sem bregðast alltaf illa við þeim. Þeir eru til sem sannfæra sig um að með slíkum ráðleggingum sé „ábyrgðin tekin af“ þeim sem brjóta gegn ósjálfbjarga fólki.
Það er að sjálfsögðu fráleitt. Það er glæpamaðurinn sjálfur sem ber ábyrgð á glæpnum en ekki fórnarlamb hans. Þó fólki sé ráðlagt að koma sér ekki í þá stöðu að það verði varnarlaust og jafnvel meðvitundarlaust innan um ókunnuga, þá er ekki með því gefið í skyn að það sé í lagi að brjóta gegn slíku fólki. Maður sem ráðleggur unglingsdóttur sinni að vera ekki ein á ferð og dauðadrukkin innan um ókunnuga, er hann að gefa í skyn að menn megi ráðast á hana við þær aðstæður?
Sumir virðast trúa því, að í landinu sé útbreidd skoðun að kynferðisbrot séu á ábyrgð fórnarlambsins en ekki kynferðisbrotamannsins, eða að einhver tiltekinn klæðnaður fórnarlambs sé réttmæt ástæða kynferðisbrots. En hver heldur því fram? Segja grunaðir kynferðisbrotamenn þetta, sér til varnar? Er einhver sem heldur fram þessum skoðunum, sem sumir halda að séu útbreiddar? Sumir telja að mjög mikilvægt sé að „færa ábyrgðina frá þolandanum á gerandann“. En þarf eitthvað að „færa“ ábyrgðina? Er hún ekki á réttum stað, hjá kynferðisbrotamanninum einum? Átta ekki allir sig á því, að kynferðisbrotamaður en ekki fórnarlamb hans ber ábyrgðina á kynferðisbrotinu, hversu varlega eða óvarlega sem fórnarlambið fór? Það er jafn mikill glæpur að ráðast á varkáran mann og óvarkáran. En það er eðlilegt að vera varkár og hvetja aðra til þess líka.