Vefþjóðviljinn 203. tbl. 17. árg.
Ríkissjónvarpið tók upp á því í kvöld að gera mikla frétt upp úr nokkurra vikna gamalli skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð.
Hvers vegna ætli það hafi nú verið?
Ætli það geti nokkuð verið vegna þess að í Morgunblaðinu í morgun birtist grein eftir Sigurð Þórðarson fyrrverandi ríkisendurskoðanda? Bætist hann þar með í langan hóp manna sem hefur gert efnislegar athugasemdir við ýmsar fullyrðingar nefndarmanna, oft fullyrðingar sem fjölmiðlamenn höfðu hent á lofti án nokkurrar sjálfstæðrar athugunar.
Ætli það geti nokkuð verið að fréttastofu Ríkisútvarpsins hafi fundist áríðandi að reyna að auka trúverðugleika skýrslunnar að nýju, með því að vitna í hana eins og fróðleiksnámu?
Af einhverjum ástæðum höfðu fréttamenn Ríkisútvarpsins minni áhuga á því sem fyrrverandi ríkisendurskoðandi hafði að segja. Þessir óháðu og öfgalausu menn sem Efstaleitið er svo fullt af.