Þriðjudagur 16. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 197. tbl. 17. árg.

Í Fréttablaðinu 13. júní síðastliðinn var rætt við Eygló Kristjánsdóttur sveitarstjóra Skaftárhrepps um þau vandræði sem hreppurinn hefur ratað í vegna sorpmála og um leið með kyndingu fyrir sundlaugina og grunnskólann á Kirkjubæjarklaustri. 

Frá árinu 2003 hefur ylur frá sorpbrennslu hreppsins dugað til hitunar á vatni fyrir laugina og skólann. Á síðasta ári gerðu yfirvöld hreppnum hins vegar að loka brennslunni vegna díoxínmengunar frá henni. Það náðu ekki að líða 10 ár frá því umhverfisráðherra kveikti á brennslunni þar til umhverfisráðherra lét loka henni.

Svo segir í fréttinni:

„Við höfum talið okkur vera fremst á þessu sviði. Nú verður sorpið einfaldlega keyrt til Reykjavíkur og urðað þar,“ segir [Eygló]. „Umhverfisins vegna finnst okkur sárt að loka brennslunni og þurfa að keyra sorpið í burtu. Það er alveg nóg umferð um Suðurland þó við förum ekki að bæta við flutningabílum.“

Að sögn Eyglóar gerir núverandi regluverk meðhöndlun sorps óvinnandi. Ekki sé bjartara framundan. „Árið 2025 á ekki að urða neitt sorp og það má ekki fara í brennslu. Hvað ætlum við að gera þá? Þetta er bara orðin vitleysa,“ segir sveitarstjórinn í Skaftáhreppi vonsvikin með lyktir sorpbrennslumálsins.

Já er ekki tímabært að skoða hvort tilskipanir Evrópusambandsins um sorpmál eigi við hér á landi og beri að leiða hiklaust í lög? Blasir ekki við að það henta ekki endilega sömu lausnir á Klaustri og í Brussel?