Vefþjóðviljinn 192. tbl. 17. árg.
Í DV í vikunni var sagt frá því að fyrrum forstjóri Íbúðalánasjóðs fengi um eina milljón króna á mánuði í lífeyri fyrir störf sín sem þingmaður, ráðherra og forstjóri hins merka sjóðs.
Nú veit Vefþjóðviljinn ekkert um lífeyrisréttindi þessa manns og allt eins má gera ráð fyrir að þarna sé farið rangt með eins og jafnan þegar fjölmiðlar „upplýsa almenning“ um kaup og kjör fólks eftir því sem þeir telja sig geta reiknað upp úr álagningarskrá.
En ef menn gefa sér eitt augnablik að þetta sé rétt með farið þá ber að þakka sérstaklega að Alþingi samþykkti nú í sumar að forstjórinn fyrrverandi fengi „grunnlífeyrinn“ sinn loks „leiðréttan“ eftir hinar skelfilegu „skerðingar“ árið 2009. Hann vantaði alveg þennan 34 þúsund króna grunn til að geta notið milljónarinnar.