Föstudagur 5. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 186. tbl. 17. árg.

Í nokkur ár, eftir að mjög slæmar breytingar voru gerðar á útvarpslögum, var við lýði sérstök stjórn Ríkisútvarpsins, kosin á Alþingi. Skömmu fyrir síðustu þingkosningar var lögum breytt þannig að Alþingi fékk ekki lengur að kjósa í stjórnina heldur skyldu ókosnir aðilar úti í bæ velja stjórnarmennina.

Eitt fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar var að stuðla að því að þessi breyting yrði afturkölluð. 

Því lýstu stjórnarandstæðingar og álitsgjafar sem sérstöku merki um að nú ætluðu vondir sjálfstæðismenn að „herða tökin“ á Ríkisútvarpinu. Nú myndi „Flokkurinn“ sem þessir hatursmenn Sjálfstæðisflokksins kalla hann gjarnan, læsa klóm sínum í Ríkisútvarpið, sem þannig fengi ekki lengur að vera sameign allra vinstrimanna.

Fréttamenn sögðu frá þessum áróðri hvað eftir annað.

Engum þeirra datt í hug að horfa til þess hvernig flokkarnir höfðu valið fulltrúa sína meðan fyrra fyrirkomulag var við lýði, að stjórnarmennirnir voru kosnir á Alþingi.

Þeir þurftu þó ekki að kafa langt til þess. Síðast hafði verið kosið í stjórn Ríkisútvarpsins á Alþingi 22. janúar 2013.

Samfylkingin valdi þá til dæmis Margréti Frímannsdóttur, fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar og formann Alþýðubandalagsins. Vinstrigrænir völdu Björgu Evu Erlendsdóttur, ritstjóra flokksmálgagnsins Smugunnar. Framsóknarflokkurinn valdi Magnús Stefánsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismann Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn, þessi með klærnar, valdi Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóra Borgarleikhússins, þaulvanan rekstrarmann úr menningargeiranum sem aldrei hefur komið nálægt stjórnmálum.

Af einhverjum ástæðum töldu fréttamenn ekki ástæðu til að segja fólki þetta. 

Það var jákvætt skref að breyta lögunum til baka eins og gert var í vikunni. En skiptir í raun sáralitlu. Breytingin mun engin áhrif hafa á það sem máli skiptir. Á Ríkisútvarpinu verður sama slagsíðan og áður og starfsmenn munu áfram fá að fara með það eins og eign sína. Stjórn Ríkisútvarpsins, hver sem kýs hana, skiptir þar sáralitlu máli.