Vefþjóðviljinn 185. tbl. 17. árg.
Það er auðvitað sárgrætilegt að skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð hafi ekki verið lögð fram fyrir þingkosningarnar í lok apríl heldur nú nokkrum vikum síðar. Það mun hlaupa á nokkur hundruð milljónum sem kjósendur greiða fyrir skýrslugerðina um hvernig ríkisapparatinu tókst að tapa nokkur hundruð þúsund milljónum. Skýrslan hefði getað gagnast skattgreiðendum þegar þeir voru spurðir í þingkosningum hvert skyldi stefna. Ekki síst í þetta sinn þegar sami flokkur og lagði Íbúðalánasjóð í rúst með því að efna fráleit kosningaloforð sín er aftur kominn á kreik með álíka loforð.
Hitt er svo annað að þeir sem lána fólki peninga geta auðvitað tapað á þeirri starfsemi. Í tapi felast skilaboð til manna um að snúa sér að einhverju öðru. Tap er því ekki síður mikilvægur þáttur á markaði en hagnaður. En skattgreiðendur eiga ekki að fá tapreikninginn og þess vegna er svo mikilvægt að ríkið komi hvergi nálægt atvinnurekstri, hvort sem það er orkuvinnsla, loðdýrarækt eða fjármálavafstur.