Vefþjóðviljinn 184. tbl. 17. árg.
Í gær var birt ný skýrsla nefndar um Íbúðarlánasjóð. Það þarf ekki að koma á óvart að í skýrslunni segi að sú stofnun hafi tapað miklum peningum. Að vísu geta stuðningsmenn Íbúðarlánasjóðs sagt að sjóðnum hafi í raun verið ætlað að tapa peningum, því hann hafi átt að sinna „félagslegu hlutverki“ sem hafi falist í því að auðvelda fólki um allt land að eignast húsnæði. Þess vegna hafi mátt búast við tapi. En kannski ekki svona miklu tapi.
Það er gagnlegt að fá óháða úttekt á fjármálum Íbúðarlánasjóðs. Hið mikla tap hans sýnir líka það sem allir hafa átt að geta sagt sér, að það eru ekki bara vondir bankar í einkaeigu, drifnir áfram af græðgi, sem geta tapað peningum. Það eru líka félagslegir húsnæðissjóðir, þar sem ekki eru hlutabréfakaup og bónusar að „hvetja til áhættuhegðunar“, eins og var vinsæll frasi.
Einkabankarnir sem fóru í þrot um árið voru glæsilega mannaðir. Sprenglærðir doktorar voru þar hvar sem litið var. Hagfræðingar, stærðfræðingar, verkfræðingar. Meistaragráðurnar láku af mönnum, en allt kom fyrir ekki. Bankar, eins og öll önnur fyrirtæki, geta einfaldlega farið illa, hvernig sem að málum þeirra er staðið. Fjárhagsáföll sanna ekki að stjórnendurnir hafi verið hálfvitar eða þjófar.
Þegar menn átta sig á þessu verður umræðan í landinu kannski betri.
En skýrslur eru ekki eingöngu til þess fallnar að bæta umræðu. Þeir sem kynna sér skýrslur og segja frá efni þeirra þurfa að gera greinarmun á ólíku efni í skýrslum. Í skýrslu geta verið fróðlegar samandregnar upplýsingar. Skýrsluhöfundar hafa oft góðan aðgang að gögnum og geta aflað upplýsinga og komið þeim skiljanlega frá sér. Upplýsingar í skýrslum geta verið gagnlegar, ef þeirra er aflað af sanngirni og skynsemi. En svo er annað í skýrslum. Það eru skoðanirnar. Þegar kemur að þeim ættu menn að fara varlega. Skoðanir skýrsluhöfunda á málum eru ekkert annað en það, skoðanir einhverra manna, misvel rökstuddar.
En að minnsta kosti tvennt ættu menn að læra af óförum Íbúðarlánasjóðs. Í fyrsta lagi að það er ekki endilega einkareksturinn sem veldur því að einkafyrirtæki tapar peningum. Og að það er kannski ekki alltaf rétt að fagna dýrum kosningaloforðum.