Þriðjudagur 2. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 183. tbl. 17. árg.

Svo er líka mjög gott úrval af spólum á héraðsbókasafninu. Útsvarsgreiðendur sjá um kostnaðinn.
Svo er líka mjög gott úrval af spólum á héraðsbókasafninu. Útsvarsgreiðendur sjá um kostnaðinn.

Öðru hverju eru sagðar af því fréttir að enn ein myndbandaleigan hafi lagt upp laupana. Nú verði síðustu spólurnar og diskarnir seld fyrir lítið, og svo verði lokað. Eigandinn segist kominn á atvinnuleysisskrá og stelpurnar sem afgreiddu hjá honum líka.

Þessu fylgja gjarnan örfá orð um að leigurnar standi höllum fæti vegna nýrrar tækni. Nú geti allir, löglega eða ólöglega eftir smekk, sótt sér myndir með rafrænum hætti heim í stofu án þess að standa upp úr sófanum.

Það er satt og rétt, vilji margra til að nýta sér þessa tækni leikur leigurnar grátt. En það er eins og alveg gleymist að einkareknu myndbandaleigurnar standa einnig í annarri samkeppni.

Sveitarfélögin reka nefnilega myndbandaleigur af miklum krafti.

Sveitarfélögin kalla það auðvitað ekki vídeóleigur, en menn ættu bara að fara inn á næsta bókasafn og biðja um að fá að sjá myndbandaúrvalið. Bókasöfnin, öll í opinberri eigu, leigja út kvikmyndir í stórum stíl, nýjar og gamlar, í fullri samkeppni við þessa fáu karla sem enn berjast í því að framfleyta sér og sínum með myndbandaleigunni sinni.

Hvers vegna eru sveitarfélögin komin í þessa samkeppni? Hafði einhver áhyggjur af því að nútímamenn ættu erfitt með að nálgast kvikmyndir, svo útsvarsgreiðendur yrðu að koma til aðstoðar? Þurfti kannski að tryggja „jafnrétti til vídeómynda“?

Hvers vegna reka sveitarfélögin vídeóleigur?

Og hvers vegna amast enginn kjörinn fulltrúi við því? Er það vegna þess að þeir vita að viðskiptavinir bókasafnanna eru margir en þessir kallar á myndbandaleigunum hafa fá atkvæði í prófkjöri? Hverjum er ekki sama um þá?