Vefþjóðviljinn 179. tbl. 17. árg.
Fyrsti mánuður loftárása á friðhelgi einkalífs:
Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um afnám trúnaðar banka, allra annarra fyrirtækja og jafnvel einstaklinga við viðskiptavini sína. Allt frá læknastofum til raftækjaverslana. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að „tekin verði af öll tvímæli um að Hagstofunni sé heimilt í þágu hagskýrslugerðar að óska eftir upplýsingum af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila.“ Ákvæðið er svohljóðandi:
Þá ber þeim að veita upplýsingar af fjárhagslegum toga um viðskipti sín við þriðja aðila enda meti Hagstofan það svo að þeirra sé þörf til hagskýrslugerðar. Undir slíka upplýsingagjöf falla m.a. upplýsingar um lánveitingar, hver sé lántaki, stöðu láns, skilmála, tegund, greiddar afborganir og vexti, vanskil og úrræði í þágu skuldara sem tengjast láninu.
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þar sem, eins og segir í athugasemdum með því, að „skerpt verði á heimildum Seðlabankans til þess að afla upplýsinga.“ Þannig hljómar það:
Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
Félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um auknar heimildir Tryggingastofnunar til upplýsingaöflunar:
Skattyfirvöld, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, hlutaðeigandi lífeyrissjóðir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður íslenskra námsmanna og aðrar stofnanir og fyrirtæki, eftir því sem við á, skulu láta Tryggingastofnun í té upplýsingar að því marki sem slíkar upplýsingar teljast nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.