Vefþjóðviljinn 178. tbl. 17. árg.
Formenn stjórnarflokkanna héldu blaðamannafund á dögunum þar sem þeir töldu stöðu ríkissjóðs verri en fyrri stjórn hefði gefið til kynna. Meiri halli væri á ríkissjóði en vænta hefði mátt.
En nú flytur Eygló Harðardóttir landsdómsákærandi og félagsmálaráðherra þau tíðindi að hækka eigi bætur ríkisins til ellilífeyrisþega. Raunar mætti ætla að enginn fengi bætur frá hinu opinbera lengur. Þetta heita allt „leiðréttingar“, „afnám skerðinga“ og „hækkun frítekjumarks“.
Hér er um að ræða breytingar sem kosta ríkissjóð um 1,6 milljarða króna á næsta ári. Á endanum fá skattgreiðendur reikninginn fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Tekjur þeirra skerðast.
Almennt þýða þessar tillögur hennar Eyglóar að þeir ellilífeyrisþegar sem hafa það best nú þegar fái mesta hækkun bóta. Þannig fær aldraður stóreignamaður með nokkur hundruð þúsund krónur mánaðarlega úr lífeyrissjóði framvegis greiddan „grunnlífeyri“ upp á 34.053 krónur úr tómum og stórskuldugum ríkissjóði. Þessi fráleita ráðstöfun á fjármunum skattgreiðenda var afnumin árið 2009.