Þriðjudagur 18. júní 2013

Vefþjóðviljinn 169. tbl. 17. árg.

Fyrir þingkosningar 2009 var það stefna Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs að sækja um aðild að ESB. Fyrir síðustu kosningar hafði flokkurinn skipt um skoðun. Hvað vill hann nú? Hvers vegna er viðræðunum ekki slitið?
Fyrir þingkosningar 2009 var það stefna Framsóknarflokksins undir forystu Sigmundar Davíðs að sækja um aðild að ESB. Fyrir síðustu kosningar hafði flokkurinn skipt um skoðun. Hvað vill hann nú? Hvers vegna er viðræðunum ekki slitið?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti veröldinni þau tíðindi í 16 mínútna hátíðarræðu á Austurvelli í gær að Íslendingar væru stoltir, menningarlegir, vel læsir, vel lesnir, bjartsýnir, kjarkaðir, sameinaðir,  stappfullir mannauðs, óendanlega hugvitsamir, einstakir þegar kemur að vöruþróun, samheldnir, til fyrirmyndar, eftirtektarverðir, óeigingjarnir, einstakir á heimsvísu, ekki menn sem létu ógnanir slá sig út af laginu, aftur til fyrirmyndar, fúsir að miðla af þekkingu og styrkleikum sínum, lærdómsfúsir, fullir sjálftrausts, stoltir, trúaðir á sjálfa sig, með fortíð barmafulla af afrekum, með gilda þjóðmenningu, stoltir af eigin uppruna, með fjölskrúðuga nútímamenningu, gestrisnir og að vinna afrek daglega.

Inn í þetta sjálfshól var svo skotið nokkuð verðskuldaðri skammarræðu um Evrópusambandið og kúgunartilburði þess gagnvart Íslendingum.

Hvers vegna slítur þá forsætisráðherrann ekki aðildarviðræðum mannkostaþjóðarinnar við óvættirnar í Brussel?