Vefþjóðviljinn 160. tbl. 17. árg.
Reykjavíkurborg hefur að undanförnu auglýst af kappi fyrir hámarksútsvarspeninga almennings að „pappír sé ekki rusl“ og hvetur borgarbúa um leið til að fá sér sérstakar bláar ruslatunnur undir pappír og pappa gegn ákveðnu gjaldi. Sérstakir sorpbílar fara um borgina og tæma þessar bláu tunnur.
Ef pappír væri verðmæti en ekki rusl mætti ætla að einhver myndi bjóðast til að sækja þessi verðmæti heim til fólks endurgjaldslaust eða jafnvel greiða fólki fyrir að afhenda djásnin. Svo er hins vegar ekki. Enginn sér þennan einstæða gróðaveg nema sveitarstjórnarmenn með fulla sjóði af hámarksútsvari.
Á meðan enginn vill taka við pappa án þess að fá greitt með honum er erfitt að flokka hann sem annað en rusl. Það er því hæpin fullyrðing hjá borgaryfirvöldum að pappi sem fólk vill losna við af heimilum sínum sé ekki rusl.
Arnar Sigurðsson ritaði um ýmsar hliðar endurvinnslunnar í Viðskiptablaðið í vikunni sem leið. Þar sagði hann um stússið í kringum pappírinn:
Líklega nær sirkus fáránleikans hæstu hæðum þegar kemur að söfnun og endurvinnslu á dagblaða- og umbúðapappír. Eftir allan tilkostnað vegna söfnunar, böggunar og útflutnings, kemur í ljós að baggarnir eru afhentir ýmist ókeypis eða því sem næst á hafnarbakka erlendis.
En hvað með umhverfið, kunna sumir að spyrja, er ekki hræðilega „óumhverfisvænt“ að grafa bara pappírinn í jörðu? Því er til að svara að áður fyrr voru víða gerð afdrifarík mistök við urðun á sorpi, m.a. í mýrlendi sem síðan olli mengun. Engu slíku er til að dreifa í dag og pappír er meira að segja hentugur til að flýta fyrir jarðvegsmyndun í sorphaugum. Á móti kemur að nytjaskógar á norðurslóðum hafa líklega aldrei verið stærri þrátt fyrir að starfsemi skógarbænda þurfi að takast á við skefjalausa samkeppni við niðurgreiddan pappír frá endurvinnslustöðvum.
Svo geta menn velt fyrir sér hvort sé umhverfisvænna að nú skuli tvær gerðir söfnunarbíla keyra um götur landsins í stað einnar til þess eins að hirða húsasorp.
Á vefnum pappírerekkirusl.is er því hótað að venjulegar sorptunnur við heimili verði ekki tæmdar finni starfsmenn sorphirðunnar pappír innan um matarafgangana. En svo segir á vef borgarinnar:
Reykjavíkurborg mun hins vegar ekki ráða „sorplöggur“ til að gramsa í tunnum íbúa eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum og skrifum á vefnum.
Já endurvinnsluhyggjan er komin á það stig að borgaryfirvöld taka það fram að þau ætli ekki að ráða sérstakar sorplöggur til að gramsa í tunnum fólks. Þar draga þau stolt mörkin, það verður ekki beitt lögregluvaldi til að framfylgja endurvinnslutrúboðinu heldur verður sorp látið hlaðast upp hjá hinum syndugu þar til þeir bæta ráð sitt.
Ekkert bendir til annars en að flokkun, söfnun og flutningur á pappírsrusli frá Íslandi sé í raun sóun á þeim takmörkuðu verðmætum sem Íslendingar hafa til ráðstöfunar. Þessi verðmæti mætti nota í gæfulegri verkefni en að eltast við „umhverfismarkmið“ sem sett eru í Brussel og eiga ef til vill við í þéttbýlum tugmilljónaþjóðfélögum þar sem land er af skornum skammti og mögulega má ná einhverri stærðarhagkvæmni í söfnun af þessu tagi.
En það er hins vegar alltaf til lokasvar við nýjum reglum og opinberum útgjöldum til umhverfismála. Þegar hvorki er hægt að sýna fram á hagnað í krónum né ábata fyrir umhverfið kemur þetta: Hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við skuldbundin til að gera þetta fyrir árið 1984 samkvæmt EES samningnum.