Vefþjóðviljinn 158. tbl. 17. árg.
Fiskifræðingar hafa nú lagt til aukningu leyfðs afla í ýmsum mikilvægum tegundum. Jóhann Sigurjónsson forstjóri hafrannsóknarstofnunar segir að sú ráðlegging sé skólabókardæmi um gagnsemi róttækrar fiskverndaraðgerðar.
Þetta eru auðvitað kærkomnar fréttir þótt enn megi efast um hversu aflaþróun síðustu áratuga er mikill gæðastimpill fyrir ráðleggingar stofnunarinnar, og þá jafnvel þó því sé svarað til að ráðgjöfinni hafi ekki alltaf verið fylgt fullkomlega. En eins og svo margir segja, sem ekki eru hrifnir af kenningum fiskifræðinga, þá er ekki svo auðvelt að benda með fullvissu á aðra aðferð sem hlyti að skila betri árangri.
En hvað sem því líður þá leiðir þetta hugann að öðru. Það hefur verið meðal lykilatriða í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi að þeir sem veiða fiskinn, handhafar veiðiheimildanna hverju sinni, hafa haft hagsmuni af því að stofnar byggist upp til langs tíma. Þeir máttu jafnan treysta því að þeir, sem niðurskurður bitnaði á, nytu aukinna heimilda ef þær yrðu veittar síðar. Þetta er ákaflega mikilvægt. Ef þessi tenging yrði rofin er auðvitað hætta á því að umgengni manna um auðlindina yrði verri en áður.
Meðal annars þess vegna var „skötuselsmálið“ svo alvarlegt. Þar náði löngun vinstrimanna til að rústa stjórnkerfi sjávarútvegsins einu sinni enn yfirhöndinni en langtímahagsmunirnir af uppbyggingu sjávarútvegsins til framtíðar urðu undir. Það er ákaflega mikilvægt að sú ríkisstjórn, sem reyndi sitt ýtrasta til að koma kreddum sínum í sjávarútvegsmálum í framkvæmd, hafi hrökklast frá völdum. Meðal annars vegna mikilvægis sjávarútvegs fyrir hagsæld landsmanna voru stjórnarskiptin í vor afar ánægjuleg, hvað sem segja má um sum baráttumál núverandi stjórnarflokka.