Vefþjóðviljinn 156. tbl. 17. árg.
Frá ríkisstjórnarskiptum hefur Vefþjóðviljinn öðru hverju minnst á að það eru ekki aðeins „stóru málin“ sem gefa til kynna með hvaða hugarfari nýir ráðamenn eru komnir í valdastólana. „Litlu málin“ geta gefið töluverða vísbendingu um það hvort nýir ráðherrar hyggist setja pólitískt mark sitt á ráðuneytin, eða hvort þeir ætla aðeins að vinna að „spennandi verkefnum“, en þar er átt við það sem frekustu menn í geira hvers ráðuneytis hafa sammælst um að láta ráðherra málaflokksins gera fyrir sig.
Hér hafa verið nefnd dæmi um slík „lítil mál“ sem geta verið mælikvarði á nýjan menntamálaráðherra og nýjan ráðherra samgöngumála. Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, getur í sparnaðarskyni beitt sér fyrir því að skattgreiðendur haldi Listahátíð á tveggja ára fresti en ekki árlega. Ekki er þar beðið um að hátíðin verði lögð niður heldur aðeins færð í það form sem þótti duga vel fyrstu fjörutíu árin sem hátíðin var haldin.
Nýr samgönguráðherra getur beitt sér fyrir því að gerð verði óháð úttekt á þeim útreikningum sem sagðir voru að baki Vaðlaheiðargöngum og áttu að sýna svart á hvítu að aldrei félli króna á skattgreiðendur. Ekki er með þessu beðið um að hætt verði við framkvæmdirnar, einungis að Ríkisendurskoðun og helst aðrir aðilar einnig, vinni slíka úttekt og að Vegagerðin og ríkissjóður haldi að sér höndum í málinu á meðan það verður gert. Er Hanna Birna Kristjánsdóttir reiðubúin til að gera það?
Næsta „litla mál“ sem benda má á í þessu sambandi reynir á nýjan fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson. Flestir vita að ríkið hleypir fjölmiðlamönnum í álagningarskrár landsmanna á hverju sumri, svo fjölmiðlarnir geta gert fjárhagsupplýsingar um fólk að féþúfu sinni. Þessu getur fjármálaráðherra ekki breytt einn og sér, þar þarf lagabreytingu, en að sjálfsögðu er rétt að hvetja ráðherrann til að hafa frumkvæði að henni. En annað getur ráðherrann gert. Skattstjóri sendir til fjölmiðla lista yfir þá sem hæst gjöld greiða í hverju umdæmi. Nýr fjármálaráðherra getur með einu bréfi farið þess á leit við skattstjóra að slíkur „hákarlalisti“ verði ekki sendur út. Hvers vegna ætti ríkið að taka saman lista um einstaklinga og senda á fjölmiðla? Hvað segðu menn ef tryggingastofnun sendi út lista yfir þá sem hæstar bætur hefðu fengið síðasta árið?
Hér er komið lítið dæmi þar sem nýr fjármálaráðherra getur beitt sér. Með því myndi Bjarni Benediktsson senda skilaboð um nýjan hugsunarhátt í fjármálaráðuneytinu.