Mánudagur 3. júní 2013

Vefþjóðviljinn 154. tbl. 17. árg.

Þjóðverjar földu sig ekki á bak við höft, háa skatta, skuldaleiðréttingar og gervigjaldmiðil eftir síðari heimsstyrjöldina.
Þjóðverjar földu sig ekki á bak við höft, háa skatta, skuldaleiðréttingar og gervigjaldmiðil eftir síðari heimsstyrjöldina.

Óðinn Viðskiptablaðsins skrifaði um lausn á skuldavanda þjóða í síðustu viku. Þar dró hann lærdóm af lausn Þjóðverja á skuldavandanum sem þeir þurftu að kljást við eftir síðari heimsstyrjöldina. Þjóðverjar lækkuðu skatta og afnámu höft ásamt því að horfast í augu við raunverð peningalegra eigna og semja um erlendar skuldir sínar. 

Óðinn segir:

Greiðsla lána Vestur-Þýskalands samkvæmt Lundúnasamkomulaginu reyndist leikur einn og fáar þjóðir hafa upplifað jafn mikla aukningu í lífskjörum og Þjóðverjar eftir stríð. Ástæðan var að aðgerðir Þjóðverja miðuðu að verðmætaaukningu en ekki að leiðrétta stöðu hópa miðað við fortíðina. Kjör Þjóðverja bötnuðu og skuldir lækkuðu vegna þess að hagvöxtur  var mikill og hagvöxtur var mikill vegna þess að hann var örvaður með lækkun skatta, hallalausum  fjárlögum og afnámi hafta.

Óðinn er ekki bjartsýnn á að hin nýja ríkisstjórn Íslands taki mið af þessu.

Núverandi ríkisstjórn áttar sig því miður ekki á þessu heldur virðist  hafa einsett sér að setja hraðamet  í aukningu ríkisútgjalda og hefur ekki kynnt neinar skattalækkanir og frestað umræðu um afnám  hafta. Í stað þess að huga að því  hvernig bæta megi lífskjörin á Íslandi á næstu árum þá virðist hún  hafa mestan áhuga á að „leiðrétta  stöðu“ hinna ýmsa hópa miðað við  bóluárin en eina leiðin til að leiðrétta tekjur Íslendinga miðað við  2007 er að efnahagsumsvif verði  jafn mikil hér á landi og árið 2007  án lánsfjárþenslu en eignaverð, t.d.  eiginfjárstaða í fasteignum, verður ekki leiðrétt miðað við stærstu  eignabólu sögunnar. Ef núverandi  ríkisstjórn, sem virðist sækja sínar helstu hugmyndir og uppeldi á bloggið lætur ekki af þessari fortíðarþrá sinni og fer að hyggja að framtíðinni þá mun henni engu betur farnast en þeirri sem nú hefur hrökklast frá völdum.