Vefþjóðviljinn 128. tbl. 17. árg.
Það vantar sjaldan kjötið á beinin hjá hinu opinbera. Í ársbyrjun var settur á fót hvorki meira né minna en „samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi“ en samkvæmt tilkynningu forsætisráðuneytisins átti með því að „skapa þverpólitískan umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið“.
Það var auðvitað það sem landsmenn þurftu helst á að halda. Þverpólitískur umræðuvettvangur „fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið“. Það er þannig sem menn auka hagsældina. Það gerum við með opinberum starfshópum þar sem fram fer málefnadrifin umræða. Það er algert skilyrði. Hún verður að vera málefnadrifin.
Og auðvitað er „umræðan“ sjálf framsýn. Þeir sem ræða saman eru ekki endilega framsýnir, ef miðað er við tilkynningu forsætisráðuneytisins, heldur er það umræðan sjálf sem er bæði framsýn og málefnadrifin.
Í fréttum í dag hefur svo verið sagt frá því að samráðshópurinn leggi til að sveitarfélög á Íslandi verði sameinuð í örfá stór og öflug, sem geti loksins farið að veita borgurunum sæmilega þjónustu, á þeirra eigin kostnað að vísu.
Vefþjóðviljinn vill auðvitað taka undir þá tillögu sem ber þess merki að vera afrakstur framsýnnar umræðu. En hann vill einnig leggja til að samhliða því verði allir froðusnakkarar landsins sameinaðir í einn risastóran froðusnakkara sem geti séð sameinuðum fjölmiðlamönnum landsins fyrir svo mikilli froðu í einu, að ekki þurfi að skipa einn einasta málefnadrifna starfshóp í mörg ár.