Þriðjudagur 7. maí 2013

Vefþjóðviljinn 127. tbl. 17. árg.

Sækja menn bætur vegna tjóns fyrir dómi eða með kylfum og haglabyssum?
Sækja menn bætur vegna tjóns fyrir dómi eða með kylfum og haglabyssum?

Ein rökin fyrir „almennri skuldaleiðréttingu“ eru þau að gömlu bankarnir hafi skaðað skulduga íbúðareigendur, þá sem voru með verðtryggð lán. 

Ekki er þó ljóst hvers vegna þetta á aðeins við um verðtryggð húsnæðislán en ekki verðtryggða húsaleigu, námslán, bílalán, lán til hlutabréfakaupa eða verðtryggð lán sem tekin voru til að fleyta fólki í gegnum veikindi, atvinnumissi eða önnur áföll. Almenna leiðréttingin er sumsé ekki almenn. Ekki liggur heldur í augum uppi hvers vegna menn vilja ekki sækja bætur til þeirra sem innleiddu 90% lánin sem voru þó neistinn sem hleypti íbúðamarkaði í bál og brand. En látum þetta liggja á milli hluta að sinni.

Gerum bara ráð fyrir að það sé rétt, að bankarnir hafi valdið fólki tjóni og hægt sé að bregða mælistiku á hlut hvers og eins þeirra í því máli. Hvernig sækja menn almennt bætur til þeirra sem valda tjóni? Er ekki réttarkerfi í landinu sem fjallar einmitt um slík mál? Það kerfi hefur síður en svo þótt halla á skuldara að undanförnu.

Hvernig stendur á að þessi krafa um bætur fór ekki fyrir dóm heldur varð að stefnumáli nokkurra loforðaflaumsframboða í þingkosningum? 

Mörg þúsund íbúðareigendur, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum gömlu bankanna, hljóta að geta tekið sig saman um sókn gegn þrotabúum þeirra fyrir dómstólum. 

Það er hin siðlega leið í samskiptum manna. Hin leiðin snýst, eins og því var réttilega lýst af helstu talsmönnum hennar, um kylfur og haglabyssur.