Vefþjóðviljinn 72. tbl. 17. árg.
Ef marka má skoðanakannanir er talsverð „hreyfing á fylginu“ hjá flokkunum þessa dagana. Slíkt kann að vera eðlilegt í lok umbrotasams kjörtímabils. Margt er maklegt í stöðunni eins og hún sýnist nú vera, en annað síður.
Sjálfstæðsflokkurinn einn nýtur til dæmis meira fylgis en ríkisstjórnin. Það er eðlilegt. Eins og ríkisstjórnin hefur verið, þá ættu líklega allir nema Lýðræðisvaktin að vera með meira fylgi en hún.
Framsóknarflokkurinn sækir mjög í sig veðrið. Ekki er vafi á því að þar nýtur flokkurinn afstöðu sinnar til Icesave-málsins. Í því máli stóð flokkurinn sig vel, ekki síst formaður hans og þingflokksformaður. Það er maklegt að þeir njóti þess. Á hinn bóginn hefur Framsóknarflokkurinn í öðrum málum iðulega séð ríkisstjórninni fyrir nauðsynlegum stuðningi þegar komið hefur að mörgum verstu verkum hennar. Án stuðnings nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins hefði ríkisstjórninni ekki tekist að efna til landsdómssvívirðunnar, svo dæmi sé tekið, en slík dæmi eru fjölmörg. Einstakir þingmenn Framsóknarflokksins hafa iðulega hlaupið undir bagga með ríkisstjórninni, svo sem í atlögunni að stjórnarskránni, umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið og þannig mætti lengi telja. Ef ríkisstjórnin hefði ekki vitað að hún gæti treyst á stuðning úr þingflokki Framsóknarflokksins við þessi trúaratriði sín, þá er ómögulegt að segja til um áhrifin á stjórnina.
En kannski má segja að skárra væri það nú að Framsóknarflokkurinn styddi ekki við ríkisstjórnina sem hann átti hugmyndina að!
Og ekki má gleyma því að Framsóknarflokkurinn lagði Alþingi til Guðmund Steingrímsson, þótt allir aðrir hefðu vitað að þar fór Samfylkingarmaður.
Þannig að fylgisaukning Framsóknarflokksins er bæði makleg og ómakleg.
En hvað með Sjálfstæðisflokkinn og Icesave? Á hann ekki skilið ráðningu vegna afstöðunnar til Icesave?
Icesave-samningarnir voru þrír. Þeir tveir fyrstu voru langverstir. Forysta Sjálfstæðisflokksins tók þá afstöðu að styðja þann þriðja og síðasta, og fékk fyrir það geysilegt hrós álitsgjafa fjölmiðlanna. Nú væri ný forysta að sýna hvað í henni byggi. Nú hefðu „harðlínumenn“ orðið undir. Nú hefðu samræðustjórnmálin sigrað átakastjórnmálin.
Og auðvitað kvað reynslan upp sinn augljósa dóm.
Því má hins vegar ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir því að Icesave III yrði lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar í atkvæðagreiðslu. Tillaga um það var naumlega felld á þingi en sjálfstæðismenn tóku virkan þátt í söfnun undirskrifta til stuðnings slíkri atkvæðagreiðslu. Þetta skipti verulegu máli um niðurstöðu málsins.
En hverjir voru það nú sem lögðust á forystu Sjálfstæðisflokksins með ofurþrýstingi til að fá hana til að styðja síðasta Icesave-samninginn? Voru það ekki einmitt sömu hetjur og eru núna bálreiðar yfir því að fá ekki að stjórna Evrópusambandsstefnu flokksins? Eru þeir ekki einmitt ævareiðar yfir því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins lét ekki undan heift þeirra heldur samþykkti skýra og eindregna stefnu í Evrópumálum? Og hverjir syngja nú sönginn um að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að „einangra sig“, eru það ekki sömu menn og áður lofsungu breytta stefnu forystunnar til Icesave III?
Þetta sjá nú allir. Forysta Sjálfstæðisflokksins mun ekki framar láta Evrópusinna og kerfiskarla atvinnulífsins leiða sig út í fen. Hún gerði vissulega mistök með afstöðu sinni til Icesave III, en slík mistök verða ekki endurtekin.
Þó það sé skiljanlegt að ýmsir vilji refsa forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir ranga afstöðu í síðasta Icesave-máli af þremur, þá er það kannski ekki eins maklegt og það er skiljanlegt. Og var Vefþjóðviljinn þó og er enn gallharður gegn Icesave-samningunum öllum.