Mánudagur 11. mars 2013

Vefþjóðviljinn 70. tbl. 17. árg.

Hvenær ætli það renni almennt upp fyrir fólki að framboðið „Björt framtíð“ er ekki nýr stjórnmálaflokkur heldur dulnefni útibús annars flokks? Sennilega mun talsverður fjöldi manna ekki átta sig á þessu fyrr en fyrstu tvo dagana eftir kjördag, allnokkrir ekki fyrr en fyrsta vetur nýs kjörtímabils og örfáir aldrei.

En svona er þetta nú samt. „Björt framtíð“ er í raun Samfylkingarframboð, ætlað til að þess að ná atkvæðum þeirra sem geta ekki hugsað sér að kjósa Samfylkinguna eftir það kjörtímabil sem nú er að ljúka. Með hliðarframboðinu, sem aldrei mun taka aðra afstöðu til ríkisstjórnar en móðurflokkurinn gerir, ætla klækjarefir Samfylkingarinnar að reyna að halda völdum eftir kosningar.

Þeir sem kjósa „Bjarta framtíð“ munu einfaldlega í raun kjósa Samfylkinguna sem þeir geta ekki hugsað sér að kjósa. 

Fyrir rúmlega viku sagðist Guðmundur Steingrímsson í sjónvarpsviðtali ætla að sitja hjá um vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Svo leiddi manntal í ljós að það dygði ríkisstjórninni ekki. Eins og hendi væri veifað greiddu Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og Róbert Marshall fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar atkvæði með ríkisstjórninni, og vantraustið féll. 

Ætli sjónvarpsstöðvarnar endursýni viðtalið, nú þegar Guðmundur er búinn að verja félaga sína í ríkisstjórninni, með þingsætinu sem hann fékk með atkvæðum framsóknarmanna í norðvesturkjördæmi? Ætli það nokkuð. 

En var Þór Saari ekki með einhverjar forsendur fyrir vantraustinu sem skýra það að Guðmundur skipti um skoðun? 

Nei, forsendur flutningsmanns vantraustsins skipta engu máli. Menn greiða einfaldlega atkvæði með eða á móti því að ríkisstjórn haldi völdum. 

Á meðan á umræðum um vantraustið stóð fóru einhverjir að kvarta yfir því að sumar þingræðurnar fjölluðu bara eiginlega ekki neitt um stjórnarskrána, sem væri þó ástæða vantrauststillögunnar. Svona eins og tillöguflytjandinn ráði því hvaða atriði eigi að ráða afstöðu annarra þingmanna til trausts eða vantrausts.

Slíkar kvartanir eru auðvitað byggðar á misskilningi. Það er ekki hægt að leggja fram endalausar vantrauststillögur á sama þinginu. Þegar vantrauststillagan kemur fram, þá taka menn afstöðu til þess hvort þeir vilja að ríkisstjórnin haldi völdum eða ekki. Menn eru ekki að taka afstöðu til forsendna þess eina þingmanns sem lagði tillöguna fram, hvorki þeir sem verja stjórnina né þeir sem vilja hana frá. Þór Saari getur ekki, með vali einhverra forsendna sem hann sjálfur hefur fyrir tillögunni, tekið frá öðrum þingmönnum möguleikann á því að taka afstöðu til vantrausts, með eða móti, eftir eigin skoðunum á því hvort stjórnin eigi að vera við völd eða ekki.

Þegar Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall greiddu því í dag atkvæði að ríkisstjórnin héldi völdunum, þá voru þeir einfaldlega að taka þá afstöðu að núverandi ríkisstjórn eigi að vera áfram við völd – en ekki taka afstöðu til einhverra orða í greinargerð Þórs Saaris. Með atkvæði sínu í dag lýstu þeir yfir því, sem allir áttu auðvitað að vita, að þeir eru stjórnarþingmenn og ekkert annað. Atkvæði greitt „Bjartri framtíð“ er atkvæði greitt áframhaldandi ríkisstjórnarþátttöku Samfylkingarinnar og engu öðru.